Níundi laxinn hjá þeim Birgi og Hilmari í morgun. Þeim var öllum sleppt. Ljósm. mm.

Tilraunaveiðar hafnar í Andakílsá eftir þriggja ára hlé

Nú í vikunni hófust tilraunaveiðar í Andakílsá í Borgarfirði eftir þriggja ára hlé. Ekkert hefur verið veitt í ánni eftir að ríflega 20 þúsund rúmmetrar af aur úr miðlunarlóni Andakílsárvirkjunar var fyrir mistök veitt í ána í maí 2017. Stjórn Veiðifélags Andakílsár hefur í samráði við fiskifræðinga og helstu ráðgjafa tekið ákvörðun um að veitt verði í 60 daga á þessu sumri á eina stöng. Einungis vönum laxveiðimönnum í Andakílsá stóð til boða að veiða í ánni í sumar. Veiðum þeirra fylgja kvaðir svo sem um upplýsingagjöf, einungis er leyfilegt að drepa tvo laxa á dag og úr þeim skal sömuleiðis taka sýni til rannsókna. Að sögn Ragnhildar Helgu Jónsdóttur formanns veiðifélagsins verður reynslan af þessum tilraunveiðum í sumar nýtt til að taka ákvörðun um næstu skref. Mögulega hefjast veiðar næsta sumar og þá veitt á tvær stangir líkt og fyrir umhverfisslysið vorið 2017.

Birgir Guðnason frá Akranesi hefur veitt í Andakílsá í sextíu ár og þekkir því hverja þúfu og hvern stein við ána. Faðir hans Guðni Eyjólfsson var reyndasti veiðimaður árinnar fyrr og síðar, en hann veiddi þar nánast til hinsta dags, síðast þegar hann var 95 ára. Birgir var við veiðar þegar stjórn veiðifélagsins boðaði blaðamenn til upplýsingafundar í morgun. Óhætt er að segja að veiðin hjá Birgi lofi góðu um að tekist hafi að endurheimta lífríki árinnar. Þegar gestirnir stoppuðu við árbakkann um klukkan ellefu í dag voru Birgir og veiðifélagi hans Hilmar Magnússon að landa níunda laxinum frá því í morgun. Andakílsá er því full af fiski, að mestu eins árs lax úr sjó.

Nánar verður sagt frá endurheimt Andakílsár í næsta Skessuhorni.

Kristján Már Unnarsson fréttamaður á Stöð 2 ræðir hér við Birgi Guðnason á árbakkanum. Skömmu síðar setti Birgir í tíunda laxinn í morgun! Ljósm. mm.

Líkar þetta

Fleiri fréttir