Sveitalíf sem kitlar hláturtaugarnar

Næstu skemmtanir: Grundarfjörður – Borgarnes – Akranes

Friðrik Ómar og Jógvan ferðast nú um landið á húsbíl og heimsækja yfir 20 staði víðsvegar um landið með skemmtun sem ber nafnið Sveitalíf. Þeir gáfu saman út plötuna Vinalög árið 2009, með íslenskum og færeyskum dægurlögum. Í framhaldinu fóru þeir í ferð um landið og um síðustu áramót ákváðu þeir að endurtaka þann leik. Nú er röðin komin að Vesturlandi. Þeir halda tónleika í kvöld í Grundarfirði, annað kvöld í Borgarnesi og á fimmtudagskvöld á Akranesi.

Friðrik Ómar og Jógvan hafa síðustu ár verið vinsælir skemmtikraftar og veislustjórar, saman eða hvor í sínu lagi. Gestir mega búast við góðri kvöldskemmtun sem kitlar hláturtaugarnar þar sem þeir félagar syngja og segja sögur. „Við tölum eiginlega jafn mikið og við syngjum,“ segir Friðrik Ómar í samtali við Skessuhorn. Þeir tvinna saman sambandi Íslands og Færeyja á mjög skemmtilegan hátt og segja sögur af þeim sjálfum sem vel er hægt að hlæja að. „Okkur hefur verið tekið frábærlega, mætingin hefur verið góð og mikil stemning,“ segir Friðrik Ómar. Þeir félagar verða Samkomuhúsinu í Grundarfirði í kvöld, í Hjálmakletti í Borgarnesi miðvikudagskvöld og á Gamla kaupfélaginu á Akranesi fimmtudagskvöld. Hægt er að kaupa miða á tix.is.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Kerlingarfjöll friðlýst

Í dag var undirrituð friðlýsing Kerlingarfjalla og nærliggjandi svæða, alls um 344 ferkílómetrar. Friðlýsingunni var fagnað við hálendismiðstöðina í Ásgarði... Lesa meira