Vinna við glergerð verksins eftir teikningum og forskrift myndhöfundar var hjá Glaswerkstätte Dr. H. Oidtmann, í Linnich í Þýskalandi.

Framlag Snorrastofu á Reykholtshátíð 2020

Eins og undanfarin ár fagnar Snorrastofa í Reykholti Reykholtshátíð, sem haldin verður með hefðbundnu sniði dagana 24.-26. júlí næstkomandi. Ánægjulegur áfangi náðist þegar séð varð framá að hægt yrði að halda hátíðina þrátt fyrir þrengingar vegna Covid-faraldurs og samkomubanns, sem nú hefur verið aflétt nægjanlega mikið. Á Reykholtshátíð flytja framúrskarandi listamenn sígilda tónlist á fernum tónleikum, Snorrastofa býður til fyrirlesturs og kirkjan boðar til hátíðarmessu, allt samkvæmt venju.

Laugardaginn 25. júlí kl. 13 flytur Valgerður Bergsdóttir myndlistarmaður fyrirlesturinn, Gluggar Reykholtskirkju. Valgerður er myndhöfundur glugganna og í fyrirlestrinum lýsir hún vinnuferli við þema viðfangsefnis og teikningum fyrir glergerð. Fyrirlesturinn verður fluttur í Bókhlöðu Snorrastofu og þangað eru allir hjartanlega velkomnir. Vinna að verkefninu stóð yfir með hléum á árunum 2001 til 2006. Arkitekt kirkjunnar er Garðar Halldórsson, sem þá var húsameistari ríkisins.

Athyglisvert og fordæmisgefandi við framkvæmd verksins var ákvörðun byggingarnefndar um samkeppni meðal valinna myndlistarmanna um verkið. Samkeppnin fór fram á vegum Sambands íslenskra myndlistarmanna í byrjun 10. áratugarins. Kirkjan var þá á byggingarstigi og nokkur tími leið þar til efni stóðu til að hefja vinnu við gerð glersins.  Þátttakendur í samkeppninni unnu með hliðsjón af útboðstexta: „Myndefni höfði til kristni og kirkju með tilliti til söguhelgi staðarins. Listamaðurinn hefur frjálsar hendur um útfærslu þess með tilliti til þess, að kirkjan er nútímabygging í klassísku formi.“ Vinna við glergerð verksins eftir teikningum og forskrift myndhöfundar var hjá Glaswerkstätte Dr. H. Oidtmann, í Linnich í Þýskalandi.

Dr. Halldór Björn Runólfsson, listfræðingur, sem þá var prófessor í listfræði við LHÍ,  kemst svo að orði um verkefnið og texta þess í frumgögnum: „Það voru tillögur Valgerðar Bergsdóttur, teiknara, sem urðu fyrir valinu, en samkvæmt útboðsgögnum skyldi kristni og kirkja vera meginþema myndskreytinganna með hliðsjón af sögulegu mikilvægi staðarins sem eins helsta kirkju og höfðingjaseturs landsins á miðöldum. Hvað hið síðarnefnda áhrærir þá er og verður Reykholt tengt nafni Snorra Sturlusonar, veraldlegs höfðingja sem í skrifum sínum var maður tveggja tíma, heiðni og kristni. […] Stærð Snorra er ekki síst fólgin í því að hann skynjaði betur en nokkur annar norrænn maður hve mikilvægt það var fyrir menningu okkar að varðveita órofa hefð sem tengdi kristindóm samtíðar hans við trúarbrögð fyrri alda.“

Áætlað hafði verið að Þór Magnússon þjóðminjavörður flytti erindi Snorrastofu á hátíðinni, en hann forfallaðist og Snorrastofa og söfnuður Reykholtskirkju lýsa yfir þakklæti sínu við listamanni Valgerði Bergsdóttur að vitja staðarins og veita af brunni sinnar þekkingar og reynslu. Allir áhugasamir eru hvattir til að sækja fyrirlesturinn. Aðgangur er ókeypis.

-fréttatilkynning.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Kerlingarfjöll friðlýst

Í dag var undirrituð friðlýsing Kerlingarfjalla og nærliggjandi svæða, alls um 344 ferkílómetrar. Friðlýsingunni var fagnað við hálendismiðstöðina í Ásgarði... Lesa meira