Búið er að loka fyrir umferð yfir brúna á Geirsá neðst í Reykholtsdal eftir að hún seig þegar steypudælubíl var ekið yfir hana. Ljósm. ES.

Brú á bláþræði

Brúin yfir Geirsá á tengivegi neðst í Reykholtsdal á milli bæjanna Kletts og Runna hangir nú á bláþræði. Brúarbitarnir hvíla á trébúkkum og er nú annar búkkinn hruninn og brúin hefur sigið talsvert niður, en hangir þó enn uppi. Það var steypudælubíll sem var á ferðinni yfir brúna þegar trébúkkinn gaf sig en bíllinn slapp þó yfir, að sögn Valgeirs Ingólfssonar hjá Vegagerðinni. Búið er að loka fyrir alla umferð yfir brúna en að sögn Valgeirs er ekki ljóst hver beri ábyrgð á að gert verði við hana. Hann segir þennan veg ekki hafa verið á skrá Vegagerðarinnar í fjölmörg ár og að Borgarbyggð hafi séð um viðhald á honum undanfarin ár. „En hvort það sé sveitarfélagið eða einhver annar sem ber ábyrgð veit ég bara ekki, það verða aðrir að dæma um,“ segir Valgerir og bætir við að brúin sjálf sé ekki ónýt. „Ég held það ætti að vera hægt að lyfta henni upp og byggja undir hana að nýju,“ segir hann í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir