Svipmynd frá núverandi urðunarrein í Fíflholtum. Ljósm. úr safni/mm.

Segja íbúa á Snæfellsnesi hafa lagt sig fram við flokkun á sorpi

Á miðvikudaginn síðastliðinn birtist hér á vef Skessuhorns frétt um að nágrannar við sorpurðunina að Fíflholtum á Mýrum séu óánægðir með að stjórn Sorpurðunar Vesturlands vilji auka það magn sorps sem heimilt er að urða í Fíflholtum. Í bréfi sem nágrannarnir sendu frá sér segir m.a. að; „Enn fremur vekur furðu þegar sveitarstjórnarmenn á Snæfellsnesi veifa grænum fána umhverfisverndar og hreinleika á sunnudögum og senda svo allt sitt sorp óflokkað til urðunar í Fílfholtum, þar sem það fýkur svo út um alla flóa.“

Vegna þessarar ályktunar nágranna við Fíflholt vilja eftirtaldir aðilar svara:

„Í nýlegri ályktun ábúenda í nágrenni við urðunarstaðinn í Fíflholtum má segja að frjálslega sé farið með staðreyndir um sorpmál, og umhverfismál, á Snæfellsnesi. Finnum við okkur því knúin til þess að draga fram nokkur mikilvæg atriði, í framhaldi af þeirri umfjöllun.

Eftir nokkurra ára undirbúning og verklagsbreytingar hlutu sveitarfélögin á Snæfellsnesi umhverfisvottun EarthCheck árið 2008. Vottunin er veitt fyrir stöðugar úrbætur í umhverfis- og samfélagsmálum. Sama ár hóf Stykkishólmsbær, fyrst allra sveitarfélaga á Íslandi, þriggja tunnu flokkun við heimili og fylgdu hin sveitarfélögin fljótt á eftir, með tveggja og þriggja tunnu flokkun. Í tólf ár hafa því íbúar á Snæfellsnesi samviskusamlega flokkað sorp, en að auki er flokkun á gámasvæðum og hjá fyrirtækjum. Árangurinn er áþreifanlegur og standa heimilin sig hvað best, þar sem tæplega helmingur úrgangs fer í endurvinnslu. Í haust má búast við því að sú tala aukist töluvert þegar Snæfellsbær, fjölmennasta sveitarfélagið, hefur flokkun lífræns úrgangs, sem almennt telur um þriðjung alls úrgangs. Sorpmálin eru einungis eitt af mörgum sviðum sem umhverfisstarf Snæfellinga tekur til.

Íbúar Snæfellsness gera sitt besta og hafa lagt á sig ýmiss konar vinnu við þróun og þátttöku í framsæknu umhverfisstarfi. Það er miður að framlag þeirra sé dregið inn í ágreining um framkvæmd starfseminnar í Fíflholtum. Það er jafnframt leitt að finna að framganga sveitarfélaganna á Snæfellsnesi í umhverfismálum sé ekki metin meira en þessi skrif bera með sér.

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfjarðarbæ

Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmsbæ

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ

Eggert Kjartansson, oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps

Guðrún Reynisdóttir, oddviti Helgafellssveitar

Guðrún Magnea Magnúsdóttir, verkefnastjóri umhverfisvottunar Snæfellsness“

Líkar þetta

Fleiri fréttir