Gunnar tilbúinn að taka á móti svöngum gestum.

Gamla kaupfélagið hefur opnað matstofu

Gamla kaupfélagið á Akranesi var enduropnað með nýjum áherslum fimmtudaginn 18. júní síðastliðinn. „Við breyttum heildarkonseptinu og nú er þetta ekki hefðbundinn veitingastaður lengur, heldur matstofa,“ segir Gunnar Hafsteinn Ólafsson, einn af eigendum Gamla kaupfélagsins í samtali við Skessuhorn. Matstofan er opin alla virka daga frá kl. 11:30-14 og boðið er upp á fimm heita rétti alla daga, einn rétt dagsins, sem breytist milli daga, purusteik, sem er alltaf í boði og þrjá rétti vikunnar, kjúklingarétt vikunnar, vegan rétt vikunnar og fiskrétt vikunnar. Að auki fylgir öllum réttum súpa dagsins og kaffi. „Hugmyndin er að þetta sé heimilislegt, notalegt og skemmtilegt. Fólk á að geta komið og borðað hjá okkur þó það taki bara stutt matarhlé. Það á ekki að vera nein bið eftir matnum og þú átt að geta farið inn og út á korteri ef þú kýst,“ segir Gunnar.

Annað helst óbreytt

Valdimar Ingi Brynjarsson, einn af eigendum Gamla kaupfélagsins, stóð vaktina í hádeginu á mánudaginn þegar blaðamaður Skessuhorns kíkti við. Hann segir viðtökur Skagamanna hafa verið vonum framar. En af hverju var ákveðið að gera þessar breytingar? „Okkur langaði bara í tilbreytingu,“ svarar hann. „Við viljum að það sé alltaf gaman að mæta í vinnuna því annars hefur maður ekki ánægju af því sem maður er að gera og þá gerir maður kúnnana ekki heldur glaða en það er það sem skiptir mestu máli í þessu,“ segir hann og bætir við að þeim hafi einnig þótt vanta eitthvað nýtt fyrir Skagamenn í hádeginu. „Við leggjum áherslu á að vera með góðan mat í hádeginu og geta boðið upp á góða og snögga þjónustu og miða við móttökurnar síðan við opnuðum aftur leggst það vel í fólk,“ segir Valdi.

Aðspurður segir hann aðra starfsemi Gamla kaupfélagsins haldast óbreytta. „Við verðum áfram með allskonar viðburði eins og tónleika, böll og fleira og þá gæti verið að við bjóðum upp á viðburð með mat líka, það yrði þá bara eitthvað sem er auglýst með góðum fyrirvara og fólk pantar borð,“ segir hann. Í vor var byrjað að bjóða upp á grillpakka hjá Gamla kaupfélaginu og gat fólk þá pantað sér steikur tilbúnar beint á grillið. „Við munum halda áfram að bjóða upp á það í sumar og við ætlum líka að leggja meiri áherslu á veisluþjónustuna okkar,“ segir Valdi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir