Silfurtún í Búðardal. Ljósm. úr safni

Heilbrigðisstofnun Vesturlands vill ekki taka við rekstri Silfurtúns

Á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar 13. febrúar í vetur var samþykkt að leita eftir því að Heilbrigðisstofnun Vesturlands tæki við rekstri Dvalar- og hjúkrunarhimilisins Silfurtúns í Búðardal. Þá sendi Kristján Sturluson sveitarstjóri bréf til Jóhönnu Fjólu Jóhannesdóttur forstjóra HVE þar sem hann óskaði eftir formlegri afstöðu HVE um að stofnunin tæki við rekstri Silfurtúns. Sagði hann Dalabyggð sjá marvísleg tækifæri fólgin í því að Silfurtún yrði hluti af Heilbrigðisstofnun Vesturlands og benti á að fordæmi væri fyrir slíku þar sem HVE rekur sambærilegar stofnanir í Húnaþingi vestra og Strandabyggð.

Svar barst frá Jóhönnu Fjólu forstjóra HVE 20. maí síðastliðinn þar sem hún segir HVE hafa farið yfir erindið en telji engar forsendur vera fyrir því að stofnunin taki yfir rekstri Silfurtúns. Hún segir það ekki falla undir hlutverk HVE að sjá um rekstur dvalarrýma og að engin áform séu um að taka yfir dvalar- og hjúkrunarheimili sem þegar eru rekin af sveitarfélögum. Bendir hún á að HVE reki aðeins hjúkrunarheimilin í Húnaþingi vestra og Strandabyggð vegna þess að áður en HVE var stofnað voru þar heilbrigðisstofnanir reknar af ríkinu með heilsugæslustöð og legudeild þar sem voru og eru í dag samrekin hjúkunarrými og almenn sjúkrarými.

Langvarandi hallarekstur

Ástæðan fyrir því að Dalabyggð leitaði til HVE varðandi rekstur Silfurtúns er sú að rekstur fámennra dvalar- og hjúkrunarheimila er erfiður. Einnig telur Dalabyggð að margvísleg samlegðaráhrif felist í því að heilsugæsla og hjúkrunarheimili sé rekin saman. Að sögn Kristjáns Sturlusonar hefur Dalabyggð greitt með rekstri Silfurtúns í fjölda ára en reksturinn hefur ekki staðið undir sér lengi, þrátt fyrir mikið aðhald. Er kominn mikill uppsafnaður halli í rekstri sökum þessa og hefur sveitarfélagið verið í sambandi við heilbrigðisyfirvöld vegna málsins í mörg ár. Var málið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 22. júní síðastliðinn þar sem formanni stjórnar Silfurtúns og hjúkrunarframkvæmdarstjóra í samráði við sveitarstjóra er falið að taka saman greinagerð um framhald málsins. „Við munum eftir þá vinnu taka þessa umræðu við heilbrigðisráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands um næstu skref,“ segir Kristján Sturluson sveitarstjóri í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir