Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hvetur til lagningar ljósleiðara

Á fundi bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar fimmtudaginn 2. júlí hvatti bæjarstjórn Póst- og fjarskiptastofnun til að horfa sérstaklega til þess að að leggja ekki kvaðir á fjarskiptafyrirtæki sem gætu verið hamlandi fyrir frekari uppbyggingu ljósleiðaranets á landbyggðinni.

„Bæjarstjórn Stykkishólmsbær telur mikilvægt að skapað verði umhverfi sem styður við áframhaldandi uppbyggingu ljósleiðarnets í þéttbýliskjörnum á landsbyggðinni,“ segir í afgreiðslu bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar. „Þéttbýlin á landsbyggðinni hafa setið á hakanum undanfarin ár og er nauðsynlegt að tryggja að það verkefni verði klárað í samræmi við stefnu Alþingis í fjarskiptum fyrir árin 2019-2033 þar sem fram kemur að ljósleiðaravæðing verði áfram forgangsverkefni og ljósleiðaravæðingu allra lögheimila og vinnustaða á Íslandi verði lokið árið 2025,“  segir Hildur Lára Ævarsdóttir, sem sat fundinn í fjarveru Gunnlaugs Smárasonar, bæjarfulltrúa. Í máli Hildar kom einnig fram að H-listinn leggi ríka áherslu á að bærinn verði ljósleiðaravæddur sem allra fyrst og hvetur í því sambandi til þess að núverandi innviðir í formi röra, brunna og ljósleiðara verði nýttir við lagningu ljósleiðara sem fyrst, m.a. vegna tækifæra í tengslum við starfa án staðsetningar og í samræmi við tæknikröfur nútímasamfélags.

Bæjarstjórn sendi Póst- og fjarskiptastofnun umsögn sína í kjölfar þess að stofnunin óskaði viðbragða allra hlutaðeigandi aðila við frumdrögum vegna greininga á heildsölumörkuðum fyrir staðaraðgang með fasttengingu og miðlægan aðgang með fasttengingu fyrir fjöldaframleiddar vörur.

Hægt er að kynna sér frumdrögin með því að smella hér.

Líkar þetta

Fleiri fréttir