Guðrún María Björnsdóttir og Jóhann Páll Þorkelsson með fimm mánaða son sinn, Björn Sigþór. Fjær er gamla húsið sem nú hefur loks verið dæmt ónýtt. Dætur þeirra tvær voru í heimsókn hjá ömmu sinni í Eyjafirði þegar myndin var tekin. Ljósm. Skessuhorn/mm

Þurfa að koma sér upp nýju húsi fyrir veturinn

Hjónin Guðrún María Björnsdóttir og Jóhann Páll Þorkelsson bændur á Snartarstöðum í Lundarreykjadal urðu fyrir því óhappi í byrjun júní að íbúðarhúsið þeirra og allt innbú eyðilagðist í eldi. Blessunarlega slasaðist enginn í brunanum og þeir sem í húsinu voru komust óskaddaðir út og náðu að kalla út aðstoð. Ljóst er að röð tilviljana réði því að enginn slasaðist.

Húsið á Snartarstöðum var byggt 1957, eða nokkrum árum áður en Björn Þorsteinsson og Guðrún Hannesdóttir fyrrum bændur, afi og amma Guðrúnar Maríu, eða Gunnu Mæju eins og hún er kölluð, keyptu jörðina og fluttu þangað búferlum úr Skorradal á sjöunda áratugnum. Húsið er tvílyft íbúðarhús, byggt úr holsteini úr vikri, með steyptri plötu milli hæða og múrað innan sem utan. Eldurinn blossaði upp undir morgun í svefnherbergi á efri hæð og er talið að hann hafi kviknað út frá spjaldtölvu, eða Ipad, í öðru stúlknaherberginu. Þessari atburðarás lýsir Gunna Mæja þannig: „Tilviljun réði því að tengdamamma hafði verið hjá okkur og ákveðið að fara norður, en frestaði því þó til morguns að keyra norður í Eyjafjörð þar sem hún býr. Hún gisti því í litla 15 fermetra gestahúsinu okkar sem við höfum hér til hliðar við húsið. Elsta barnið okkar fékk að gista þá um nóttina hjá ömmu sinni. Sú yngri var ekki ánægð með það og úr varð að hún svaf á milli hjá okkur í hjónaherberginu á neðri hæðinni ásamt nokkurra mánaða gömlum syni okkar. Það var því enginn á efri hæðinni þegar eldurinn kviknaði undir morgun. Heimilistíkin okkar vakti okkur svo af værum blundi klukkan fimm um morguninn og við gátum komið okkur út úr húsinu án þess að verða meint af og hringt í Neyðarlínuna-112. Þannig má segja að röð tilviljana hafi ráðið því að enginn slasaðist, en húsið er hins vegar alónýtt og allt innbúið,“ segir Gunna Mæja í samtali við Skessuhorn.

Rætt er nánar við þau Jóhann og Gunnu Mæju í Skessuhorni sem kom út í dag. Meðal annars um baráttu þeirra við tryggingafélagið og kapphlaupið við tímann að reisa nýtt íbúðarhús áður en vetur gengur í garð. Nú liggur fyrir hvað tryggingarnar munu bæta upp í það mikla tjón sem þau urðu fyrir. 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir