Svipmynd frá núverandi urðunarrein í Fíflholtum. Ljósm. úr safni/mm.

Mótmæla því að Sorpurðun ásælist að urða í Fíflholtum sorp úr öðrum landshlutum

Nágrannar við sorpurðunina að Fíflholtum á Mýrum hafa sent stjórn fyrirtækisins athugasemdir vegna frummatsskýrslu sem gerð hefur verið vegna áhrifa fyrirhugaðrar aukningar á magni sorps sem urða má í Fíflholtum. „Við nágrannar við urðunarstaðinn erum mjög óánægðir með þá ásókn stjórnar Sorpurðunar Vesturlands að vilja auka það magn sorps sem heimilt er að urða,“ segir í ályktun sem ábúendur á Furumel, Kálfalæk, Skiphyl, Einholtum, Mel og Birkimel rita undir.

Gegn stefnu stjórnvalda

Í athugasemdum nágranna urðunarstaðarins segir m.a. að mótmælt sé að gefið verði leyfi til aukinnar urðunar í landi Fíflholta. „Eftir lestur þessarar frummatsskýrslu undrumst við mjög þá ásókn stjórnar Sorpurðunar Vesturlands hf. í að mega auka það magn sem leyfi sé fyrir að urða úr 15 þúsund tonnum árlega í 25 þúsund tonn. Fram kemur í skýrslunni að með aukinni flokkun á sorpi rúmist áætlað magn sorps af svæði Sorpurðunar Vesturlands auðveldlega innan þeirrar heimildar sem núna er í gildi til ársins 2028. Má þar benda á áætlun 34 sveitarfélaga á suðvesturhorni landsins um að á árinu 2020 verði hætt að urða lífrænan og brennanlegan úrgang. Einnig gengur þessi aukning þvert gegn stefnu umhverfisráðherra og ríkisstjórnar, sem miðar að því að draga verulega úr því magni sorps sem til urðunar kemur.“

Veifa grænum fána á sunnudögum

Þá segir í bréfinu að ekki verði betur séð en stjórn Sorpurðunar Vesturlands hafi uppi stór áform um að taka við miklu magni af sorpi af öðrum svæðum og sé farin að renna hýru auga til höfuðborgarsvæðisins, auk Suðurlands og Vestfjarða. „Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur nýverið hafið söfnun á lífrænum úrgangi, og er það vel. En furðulegt má telja að fjölmennasta sveitarfélagið á svæðinu, Akranes, telji sig ekki tilbúið í það að flokka og safna lífrænum úrgangi. Einnig eru mismunandi reglur um flokkun milli sveitarfélaga. Til dæmis er allt plast sett í almennt heimilissorp í Vesturbyggð. Enn fremur vekur furðu þegar sveitarstjórnarmenn á Snæfellsnesi veifa grænum fána umhverfisverndar og hreinleika á sunnudögum og senda svo allt sitt sorp óflokkað til urðunar í Fílfholtum, þar sem það fýkur svo út um alla flóa.“

Óframkvæmanlegt að hindra fok

Í athugasemdum nágranna Fíflholta segir að sýnt þyki að þær mótvægisaðgerðir sem gerðar voru til að hindra fok frá urðunarstaðnum séu ófullnægjandi eins og komið hafi í ljós síðastliðinn vetur þegar mikið fauk af rusli bæði til austurs og vesturs. Segja þeir mest áberandi blátt plast sem rekja má til fiskvinnslu. „Ef til vill er nýja girðingin staðsett of langt frá urðunarreininni þannig að plast og pappi, sem alls ekki á að koma til urðunar í Fíflholtum, fýkur auðveldlega yfir. Einnig má nefna að það svæði sem urðað er í hverju sinni er stórt, vegna breiddar urðunarreinarinnar og hæðar á stálinu, þannig að óframkvæmanlegt er fyrir starfsmenn að hylja svæðið í lok hvers dags eins og krafa er um og nefnt er í skýrslunni.“

Lyktin slæm í vestlægri átt

Bréfritarar benda á að í skýrslu Sorpurðunar Vesturlands komi fram að urðunarstaðurinn sé í skjóli milli klapparholta og sjáist hvergi. Einnig að sú urðunarrein sem um ræðir í skýrslunni taki við mun meira magni en upphaflega var gert ráð fyrir þriggja metra urðunarhæð. Sagt er að vegna þess að dýpra er á berggrunn er urðað í allt að 10 m hæð. En yfirborðshæð sé það sama. „Nú er það þannig þegar litið er til Fíflholta, héðan frá Furumel, á urðunarstaðinn, „sem hvergi sést og er á milli klapparholta”, þá bera við himinn haugar af timburkurli, ruslabílar sem eru að losa ásamt þeim vélum sem eru að vinna við urðunina. Þetta stenst illa skoðun. Annað hvort hafa klapparholtin lækkað, eða urðunarstálið er hærra. Það er líka þannig ef vindátt er vestlæg, þá erum við mynnt á nágranna okkar á óþægilegan hátt, með þeirri lykt sem þessari starfsemi fylgir.“

Hætti ásókn í sorp annarra

Að lokum eru sveitarfélög á Vesturlandi hvött til að ásælast ekki sorp annarra landshluta: „Því skorum við á stjórn Sorpurðunar Vesturlands að þeir hætti þessari ásókn í sorp frá öðrum svæðum og komi þeim skilaboðum til sinna sveitarstjórnarmanna, að þeir fari að koma meðhöndlun og flokkun úrgangs í viðunandi horf, og hætti að senda til Fíflholta rusl sem ekki á þangað að fara.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Kerlingarfjöll friðlýst

Í dag var undirrituð friðlýsing Kerlingarfjalla og nærliggjandi svæða, alls um 344 ferkílómetrar. Friðlýsingunni var fagnað við hálendismiðstöðina í Ásgarði... Lesa meira