Reykholtshátíð verður síðustu helgina í júlí

Reykholtshátíð verður haldin um síðustu helgina í júlí, venju samkvæmt, sem í ár ber upp á 24. til 26. júlí. Dagskrá hátíðarinnar samanstendur af fernum tónleikum sem bjóða upp á afar fjölbreytta efnisskrá, bæði kammerverk, kórverk og einsöngslög. Einnig er fyrirlestur á vegum Snorrastofu fastur liður á dagskrá hátíðarinnar.

Feðgar syngja í fyrsta sinn saman

Opnunartónleikar Reykholtshátíðar verða föstudagskvöldið 24. júlí kl. 20 og bera yfirskriftina Feðgakonsert. Þar leiða saman hesta sín tveir fremstu söngvarar landsins, feðgarnir Kristinn Sigmundsson og Jóhann Kristinsson sem syngja í fyrsta sinn saman á tónleikum. Þeir munu, ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara, flytja þýsk sönglög eftir Beethoven, Strauss, Schubert og Schumann og einnig aríur og dúett úr óperunni Don Carlo eftir Giuseppe Verdi.

Kórkonsert með Hljómeyki

Laugardaginn 28. júlí kl. 16 verða kórtónleikar með Söngflokknum Hljómeyki. Efnisskráin er byggð upp af íðilfögrum íslenskum kórlögum eftir mörg okkar þekktustu tónskáld, m.a. Jón Nordal, Þorkel Sigurbjörnsson, Atla Heimi Sveinsson, Báru Grímsdóttur, Jórunni Viðar, Huga Guðmundsson og Hildigunni Rúnarsdóttur. Hljómeyki var stofnað árið 1974 og haslaði sér snemma völl sem einn af bestu kammerkórum landsins. Stjórnandi kórsins er Þorvaldur Örn Davíðsson.

Kammerkonsert með hljóðfæraleikurum hátíðarinnar

Laugardagskvöld á Reykholtshátíð býður upp á spennandi efnisskrá með sannkölluðum gimsteinum eftir Frank Bridge,  W. A. Mozart, Sergei Rachmaninoff og Ludwig van Beethoven. Hljóðfæraleikarar á kammertónleikunum eru einvalalið tónlistarmanna, fiðluleikararnir Auður Hafsteinsdóttir og Pétur Björnsson, víóluleikararnir Þórunn Ósk Marínósdóttir og Ásdís Valdimarsdóttir, Berglind Stefánsdóttir flautuleikari og sellóleikararnir Mick Stirling og Sigurgeir Agnarsson, sem einnig er listrænn stjórnandi hátíðarinnar.

Lokakonsert – grand finale

Lokatónleikar Reykholtshátíðar má með sanni kalla „grand finale“ þar sem allir listamenn hátíðarinnar koma fram í fjölbreyttum hópum. Tónleikarnir hefjast á stórbrotnum strengjasextett eftir Johannes Brahms en eftir hlé er efnisskráin byggð upp af íslenskum verkum. Lítill kvartett leikur sér eftir Þorkel Sigurbjörnsson er þá fyrstur á efnisskrá en síðan flytur Sigurgeir Agnarsson verk eftir Huga Guðmundsson, Veris, en verkið var samið á síðasta ári og er um Íslandsfrumflutning að ræða.

Reykholtshátíð lýkur með því að Jóhann Kristinsson og Kristinn Sigmundsson flytja ásamt hljóðfæraleikurum hátíðarinnar lagaflokkinn Grannmetislög eftir Hauk Tómasson sem hann samdi við ljóð Þórarins Eldjárn. Guðni Tómasson listsagnfræðingur og útvarpsmaður mun annast kynningar á tónleikunum.

Allir tónleikarnir fara fram í Reykholtskirkju og miðasala fer fram á TIX. Hægt er að kaupa miða á staka tónleika eða hátíðarpassa sem gildir á alla tónleika hátíðarinnar. Nánari upplýsingar um efnisskrá og flytjendur er á reykholtshatid.is og á Fésbókarsíðu hátíðarinnar.

Merkir kirkjugripir í Borgarfjarðarhéraði

Að venju býður Snorrastofa upp á áhugaverðan fyrirlestur í tengslum við Reykholtshátíð. Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður heldur erindi um það sem hann telur merkast af því sem kirkjur Borgarfjarðar hafa eða höfðu að geyma og minningarmörk í kirkjugörðum. Fyrirlesturinn hefst í Bókhlöðu Snorrastofu kl. 13, laugardaginn 25. júlí.

Reykholtshátíð er haldin síðustu helgi júlímánaðar og fer saman við vígsluafmæli Reykholtskirkju. Hátíðarmessa er fastur liður dagskrárinnar og verður sunnudaginn 26. júlí, kl. 14.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir