Bæta varaafl í fjarskiptastöðvum í kjölfar óveðurs í vetur

Neyðarlínan vinnur nú að því að gera úrbætur á 64 fjarskiptastöðvum víða um land með auknu varaafli og að fjölga færanlegum vararafstöðvum. Þar af eru 36 fastar vararafstöðvar en annars staðar eru rafgeymar eða tenglar fyrir færanlegar rafstöðvar. Tilgangurinn er að tryggja rekstraröryggi í fjarskiptum eftir mikil óveður sem gengu yfir landið í vetur. Endurbætur verða m.a. gerðar á tveimur stöðum í Dalabyggð, á Laxárdalshálsi og við Tjaldanes í Saurbæ.

Verkefni þetta hlaut á þessu ári 125 milljóna króna fjárveitingu úr ríkissjóði og var það tengt verkefninu Ísland ljóstengt. Fjárveitingarnar eru á grundvelli fjárfestingaátaks stjórnvalda til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

„Óveðrið sem gekk yfir landið í vetur afhjúpaði marga veikleika í grundvallarkerfum okkar; rafmagnskerfinu og fjarskiptakerfinu. Sú vinna sem er hafin er hjá Neyðarlínunni með stuðningi fjarskiptasjóðs er mikilvægt skref í að tryggja örugg samskipti um allt land,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir