Fulltrúar stofnaðila þróunarfélagsins. Ljósm. Skessuhorn/mm.

Þróunarfélag stofnað á Breiðinni á Akranesi

Í gær var skrifað undir tímamóta samkomulag sautján fyrirtækja og stofnana um stofnun sameiginlegs þróunarfélags á Breiðinni á Akranesi. Svæðið sem um ræðir nær yfir tíu hektara að flatarmáli, allt frá fyrrum fiskvinnsluhúsi og skrifstofum HB Granda, síðar Brims, við Bárugötu og vestur um að Akranesvita sem stendur yst á Breiðinni. Verkefnið er að forgöngu Akraneskaupstaður og Brims sem hafa frá því síðasta haust tekið höndum saman um undirbúning og stofnað þróunarfélags um nýsköpun og atvinnuuppbyggingu. Þróunarfélagið mun koma að ýmsum atvinnutengdum verkefnum. „Við sjáum fyrir okkur uppbyggingu í heilsutengdri þjónustu, ferðaþjónustu, hátækni og sjávarútvegi svo einhver dæmi séu tekin,“ sagði Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á athöfn sem fram fór í matsal gömlu fiskvinnsluhúsa HB&Co við Bárugötu. Hann gerir ráð fyrir að ný störf sem þarna munu skapast gætu hlaupið á hundruðum. Byggt verður upp rannsóknar- og nýsköpunarsetur sem mun nýtast sem aðstaða fyrir frumkvöðla. Að verkefninu koma sautján fyrirtæki og stofnanir, þar á meðal Skaginn 3X, Álklasinn og þrír háskólar. KPMG ráðgjöf hefur leitt undirbúningsvinnu vegna þessa verkefnis og stefnumótun í verktöku fyrir Akraneskaupstað og Brim. Þá var kallað eftir þátttöku íbúa á fjölmennum fundi síðastliðið haust auk þátttöku annarra hagsmunaaðila sem nú hafa skrifað undir viljayfirlýsinguna. Framkvæmdastjóri nýstofnaðs þróunarfélags er Valdís Fjölnisdóttir og stjórnarformaður er Gísli Gíslason fyrrverandi bæjarstjóri og fráfarandi hafnarstjóri Faxaflóahafna sem mun starfa að verkefninu þegar hann lýkur störfum fyrir Faxaflóahafnir í byrjun ágúst. Aðrir í stjórn þróunarfélagsins eru Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar og Inga Jóna Friðgeirsdóttir fjármálastjóri Brims.

Ítarlega verður fjallað um Þróunarsetrið á Breið í næsta Skessuhorni.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir