Soffía III stendur hér framan við eldri systur hennar í Brákarey.

Soffía III hefur nú hitt að nýju eldri systur sína

Nýverið fóru fjórir Borgfirðingar norður í Skagafjörð og sóttu tæplega fimmtíu ára rútu sem þar hefur lengi verið staðsett í suðurhlíðum Öxnadalsheiðar. Upphaflega var byggt yfir þennan bíl á Bifreiðaverkstæði Guðmundar Kjerúlf veturinn 1972-73 og fékk nafnið Soffía III, tók 35 farþega og bar skrásetningarnúmerið M-719. Lengi framan af þjónaði bíllinn sem skólabíll fyrir Barnaskólann á Kleppjárnsreykjum og gerður út af þeim Guðmundi Kjerúlf og Guðna Sigurjónssyni. Þeir nýttu svo bílinn í fjallaferðir á sumrin. Fyrir nokkrum árum var Soffía II endurbyggð eins og ítarlega hefur verið fjallað um í Skessuhorni. Hún er til húsa hjá Fornbílafjelagi Borgarfjarðar í Brákarey þar sem meiningin er að Soffía III muni sömuleiðis dvelja.

Það voru fjórir einstaklingar; Kristján Andrésson, Jakob Jónsson, Steindór Theódórsson og Arnar Guðnason, sem sameinuðumst um kaupin á Soffíu III, keyptu bílinn af dánarbúi fyrri eiganda sem bjó á Fremri Koti í Skagafirði sem er innsta býli í Skagafirði þar sem ekið er upp á Öxnadalsheiðina. Kristján sagði í samtali við Skessuhorn að bíllinn væri í ótrúlega góðu ástandi miðað við aldur og að hann hafi staðið óhreyfður síðustu tólf árin. „Við einfaldlega fengum akstursleyfi, skrúfuðum númerplöturnar á, settum í gang og keyrðum heim,“ sagði Kristján í samtali við Skessuhorn. Hann segir að til standi að lagfæra ýmislegt smálegt sem að bílnum er, sprauta hann í upprunalegu litunum og koma honum svo fyrir á fornbílasafninu í Brákarey, við hlið hinnar tíu árum eldri systur, Soffíu II.

Líkar þetta

Fleiri fréttir