Eins og fram kemur í viðtalinu hefur Ingileif alltaf haft gaman af því að vera hárgreiðslumeistari. Ljósm. Skessuhorn/glh.

Hefur gert nokkrar lokagreiðslur

Ingileif Aðalheiður Gunnarsdóttir hárgreiðslukona í Borgnarnesi er í viðtali í Skessuhorni vikunnar. Þar segir hún meðal annars frá því að hún hafi átt suma viðskiptavinina í fjölmörg ár og jafnvel fylgt þeim til hinstu hvílu. „Ég man þegar ég var stödd eitt sinn á Spáni í fríi og fékk símhringingu. „Heyrðu, mamma er dáin, hún bíður eftir þér. Hún sagði að þú hafir verið búin að lofa því að greiða henni og gera hana fína þegar hún færi.“ Þetta var Freyja heitin, mamma Imbu Hargrave hérna í Borgarnesi, sem þá var fallin frá. Freyja hafði rætt þetta við mig áður og spurt hvort ég vildi ekki greiða henni þegar hún væri öll. Hún var því sú fyrsta sem ég greiddi í kistunni. Þetta gaf mér mikið og góð tilfinning að geta hjálpað þeirra nánustu að sjá og kveðja fólkið sitt vel tilhaft.“

Ingileif hefur fylgt og greitt sex konum í kistunni og segir tilfinninguna vera góða. „Allar þessar konur voru yndislegar perlur og miklar vinkonur mínar. Í rauninni þá eru allir mínir viðskiptavinir orðnir vinir mínir,“ bætir hún við.

Sjá nánar viðtal við Ingileif í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir