Horft yfir ferðaþjónustusvæðið í Fossatúni.

Hafa enduropnað tjaldsvæðið í Fossatúni og aukið fjölbreytni í rekstri

Tjaldsvæðið í Fossatúni í Borgarfirði hefur nú verið enduropnað eftir að því var lokað fyrir fimm árum. Þá hefur Tröllagarðurinn verið lagfærður mikið og byrjað að selja aðgang í hann. Að sögn Steinars Berg er þessi viðbót tjaldsvæðisins og Tröllagarðsins við veitingahúsið og hina fjölbreyttu gistiaðstöðu á svæðinu, þ.e. svefnpokagisting, gistiheimili, smáhýsi og hótelgisting að skapa Fossatúni sérstöðu í ferðaþjónusturekstri hér á landi. Aðdráttarafl er að sögn Steinars sömuleiðis af tröllabókarskrifum og tónlistartengingu eigenda sem hefur mótað umhverfið og skapað sérstöðu.

„Við höfum nú opnað tjaldsvæðið í Fossatúni að nýju. Við ákváðum að loka því fyrir fimm árum og leggja áherslu á uppbyggingu innigistingar. Það gerðum við, sökum þess að samkeppnislegar leikreglur eru einkaaðlilum óhagstæðar í samkeppni við hið opinbera. Á þessum árum hefur uppbygging gistiaðstöðu gengið vel og skapað traustan rekstrargrundvöll. Samkeppnisaðstæður er þó enn hinar sömu og þær voru. Þær eru einstaklingum í rekstri óhagstæðar, því ríki og sveitarfélög niðurgreiða rekstur tjaldsvæða í samkeppni við einkarekstur. Ýmislegt annað hefur þó breyst sem veldur því að tjaldsvæðisrekstur verður nú skilgreindur hluti af framtíðarrekstri okkar í Fossatúni. Svæðið er hólfað niður með skjólbeltum og hefur gróið og batnað á tímabilinu og skapað skjólgóða sælureiti. Auk þess hentar hólfunin einstaklega vel vegna breyts ástands í samneyti fólks svo og kröfum um tiltækan félagslegan aðskilnað og aukið rými vegna Covid-19,“ segir Steinar.

„Aðaláhersla ferðaþjónustunnar í Fossatúni verður á að leigja út hólfin í heilu lagi fyrir lágmark fjórar einingar; hjólhýsi, fellihýsi, tjöld, húsbíla o.s.frv. En einnig verða sérstök svæði fyrir einstaklinga fáanleg. Panta þarf stæði fyrirfram í gegnum bókunarkerfi og við leggjum mikla áherslu á afþreyingarþáttinn. Aðgengi verður því takmarkað og gestir hafa tryggingu fyrir rúmgóðri aðstöðu. Þannig er aðgengi að heitum pottum, leikaðstöðu, mini golfi og Tröllagarðinum innifalið þegar fólk leigir hjá okkur tjaldsvæði. Á svæðinu eru einnig svokallaðir poddar, þ.e. svefnaðstaða í lúxus timburtjaldi.“

Tröllagarðurinn í Fossatúni er göngu,- leik- og útivistarsvæði sem nýtur vinsælda sem áfangastaður í Borgarfirði. „Undanfarið hefur verið unnið að skipulagi svæðisins og það samanstendur nú af trölla- og þjóðlagagöngu ásamt tröllaleikjum, svo sem tröllafet, tröllaspark, tröllaorð og fleira. Þetta stuðlar að skemmtilegri og fjölskylduvænni samveru í fallegri náttúru,“ segir Steinar Berg.

Líkar þetta

Fleiri fréttir