Svipmynd frá Heim í Búðardal fyrir tveimur árum. Ljósm. úr safni/ sm.

Heim í Búðardal um komandi helgi

Bæjarhátíðin Heim í Búðardal fer fram um helgina. Vegna fjöldatakmarkana í samfélaginu er dagskráin með aðeins breyttu sniði í ár en engu að síður verða fjölbreyttir viðburðir fyrir alla aldurshópa. Hátíðin hefst með hefðbundnum hætti á kjötsúpurölti á föstudagskvöldinu. Þá ætla þrjú heimili að opna fyrir gestum og á tveimur þeirra verður boðið upp á kjötsúpu og á því þriðja á að kveikja upp í grillinu. „Við ætlum að reyna að hafa fleiri og smærri viðburði í ljósi aðstæðna og dreifa þeim vel um svæðið. Það verður ekkert ball eða aðrir slíkir viðburðir þar sem margir koma saman. Þeir sem vilja halda tveggja metra millibili ættu að geta það og samt skemmt sér vel,“ segir Jóhanna María Sigmundsdóttir, verkefnastjóri hátíðarinnar í samtali við Skessuhorn. Á laugardeginum verður fjölbreytt dagskrá fyrir alla. „Það verður boðið upp á ungbarnastund á bókasafninu fyrir þá allra minnstu og svo verður vinsæla froðureinnibrautin sett upp með aðstoð slökkviliðsins. Vestfjarðarvíkingurinn verður á sínum stað og svo verður sett upp markaðstorg sem margir hafa sýnt áhuga á að taka þátt í. Við verðum með bátakeppni fyrir allan aldur og ætlar björgunarsveitin að aðstoða fólk þar. En til að taka þátt þarf að uppfylla nokkur skilyrði eins og að báturinn sé heimagerður, komist ákveðið langt og að þeir sem sigli séu þurrir allavega fyrir ofan hné,“ segir Jóhanna.

Fólk ber marga hatta

Boðið verður upp á göngur um bæinn með leiðsögn og verslanir, ferðaþjónar og fyrirtæki í sveitarfélaginu taka einnig þátt í hátíðinni með góðum opnunartímum og tilboðum. „Það hafa allir verið mjög jákvæðir og skipulag hátíðarinnar hefur gengið svo vel að ég er í raun bara að bíða eftir að eitthvað klikki,“ segir Jóhanna og hlær. „En þegar maður býr í svona litlu þorpi og er að skipuleggja svona hátíð er mikilvægt að vera meðvitaður um að fólk ber gjarnan marga hatta. Við þurfum til dæmis að hafa varaspyril fyrir Pub quiz því spyrillinn gæti verið kallaður út á sjúkrabílavakt,“ segir Jóhanna og hlær. „En þetta fylgir því að skipuleggja svona í litlu samfélagi.“ Á laugardagskvöldinu verður ekki ball eins og venja en þess í stað koma íbúar saman í brekkusöng þar sem gætt verður að því að nóg pláss sé fyrir alla.

Opnun Vínlandsseturs

Á sunnudeginum verður formleg opnun Vínlandsseturs í Leifsbúð klukkan 15:00. „Við byrjum niðri í Leifsbúð þar sem verður klippt á borða og sýningin formlega opnuð. Því næst förum við í Dalabúð þar sem við verðum með móttöku og þar geta allir komið og fengið að fræðast um sýninguna og að kynnast aðeins listamönnunum sem komu að því að gera sýninguna,“ segir Jóhanna. Aðspurð segir hún sýninguna verða opna í sumar eins og hægt verður. „Þetta er bara tilbúið til að vera opið. Það er sérstaklega gaman að heyra hvað heimamenn eru jákvæðir fyrir þessu en það er líka ekki aðeins verið að opna sýninguna heldur líka nýjan veitingastað. Á veitingastaðnum verður boðið upp á létta rétti með áherslu á íslenskt hráefni,“ segir Jóhanna. Aðspurð segir hún sýninguna sjálfa vera svipaða þeirri sem er í Landnámssetrinu í Borgarnesi en Kjartan Ragnarsson sem rekur Landnámssetrið bjó einnig til sýninguna á Vínlandssetrinu. „Þetta er í raun systursýning sýningarinnar í Landnámssetrinu. En Kjartan mun einmitt koma á opnunina og segja frá sýningunni og hvernig hún kom í raun til hans,“ segir Jóhanna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir