Fiskeldisafurðir vaxandi í útflutningi

Útflutningsverðmæti fiskeldisafurða var 11,6 milljarðar króna á fyrstu fimm mánuðum ársins. Hefur það aldrei áður verið meira, í krónum talið, á þessu tímabili. Á sama tímabili í fyrra höfðu verið fluttar út eldisafurðir fyrir rúma 10,9 milljarða króna, sem þá var met. Er því um að ræða tæplega 6% aukningu í krónum talið. Sömu sögu er þó ekki að segja um útflutningsverðmæti eldisafurða mælt í erlendri mynt, enda hefur lækkun á gengi krónunnar frá því um miðjan mars mikið að segja um verðmæti afurðanna í krónum talið. Á þann kvarða hefur útflutningsverðmæti eldisafurða dregist lítillega saman, eða um tæpt 1%. Á fyrsta fjórðungi ársins hafði útflutningsverðmæti eldisafurða aukist um 21% í erlendri mynt, og er því nokkuð ljóst að farsóttin hefur þurrkað upp þá miklu aukningu sem komin var. Þennan lítilsháttar samdrátt má að öllu leyti rekja til lækkunar á afurðaverði erlendis sem aftur má rekja til áhrifa COVID-19. En að magni til hefur útflutningur á eldisafurðum aukist aðeins á milli ára.

Líkar þetta

Fleiri fréttir