Alþýðutónlist í Búðakirkju á laugardaginn

Sumartónleikar Menningarsjóðsins undir Jökli fara fram næstkomandi laugardag í Búðakirkju og er hún öllum opin af því tilefni. Það er þríeykið Hljómórar sem flytur tónlistardagskrá við allra hæfi, í heldri stofu stíl. Rúna Esradóttir, Dagný Arnalds og Jón Gunnar B. Margeirsson mynda dægurorganismann í Hljómórum en þríradda söngur og „stofuhljóðfæri“ bera dagskrána uppi.

Það eru nýjar útsetningar eldri laga af trúarlegum toga, amerísk og íslensk sem og alþýðutónlist sem fangar tíðaranda kirkjunnar á Búðum. Einnig verða flutt ný lög Jóns Gunnars við nokkra eldri sálma. Andinn í þessari fallegu og vinsælu kirkju hefur laðað ferðalanga, íslenska og erlenda, að þessum magnaða stað um árabil, en ekki er hægt að hafa kirkjuna opna almennt fyrir gesti sökum þess. Í sumar var aftur á móti tekið upp á því að hafa kirkjuna opna fyrir gesti alla fimmtudaga frá kl. 13-16 svo fleiri hefðu tök á að skoða þessa gersemi sem endurgerð var í upprunalegri mynd sinni fyrir rúmum 30 árum síðan. Kirkjan var reist árið 1847 og á sér sérstaka og merkilega sögu.

Tónleikar Hljómóra, Alþýðumúsík við allra skap – fyrir þrjár raddir og stofuhljóðfæri fara fram í Búðakirkju í Staðarsveit á Snæfellsnesi laugardaginn 4. júlí kl. 17:00 og er aðgangur ókeypis en vissulega er frjálst að styðja starfsemi sjóðsins. Kirkjan er lítil og rúmar aðeins um 60 manns en það má hafa samband við sóknarprestinn til að taka frá sæti fyrir eldri borgara.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eygló Lind 70 ára

Hinn síungi Borgnesingur, Eygló Lind Egilsdóttir, fagnaði 70 árunum síðastliðinn laugardag. Sló hún til heljarinnar veislu í tilefni dagsins. Haldið... Lesa meira