Ásmundur Kristinn Ásmundsson yfirlögregluþjónn. Ljósm. úr safni.

Covid-19 tekur sig upp að nýju

Smitum af Covid-19 hefur verið að fjölga að nýju frá því landið var opnað fyrir ferðalög 15. júní síðastliðinn. Staðfest smit á landinu eru nú 12 og 415 eru í sóttkví. Á Vesturlandi eru sjö í sóttkví samkvæmt tölum frá Lögreglunni á Vesturlandi í dag; fimm á Akranesi, einn í Borgarnesi og einn í Stykkishólmi. Lögreglustjórar og aðrir yfirmenn hjá lögregluembættum landsins funduðu um stöðuna með sóttvarnalækni, almannavörnum og heilsugæslunni í morgun. „Við höfum áhyggjur af því að fólk sé að slaka á sóttvörnum,“ segir Ásmundur Kr. Ásmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Skessuhorn. Sumrinu fylgja viðburðir þar sem fjölmenni kemur saman. Segir Ásmundur lögregluna hafa áhyggjur af smitvörnum þegar kemur að bæjarhátíðum, íþróttaviðburðum og öðrum fjölmennum samkomum. Minnir hann á að enn eru í gildi 500 manna samkomutakmarkanir.

Hreinlæti besta vörnin

Um næstu helgi verða m.a. Írskir dagar á Akranesi og bæjarhátíðin Heim í Búðardal, þar sem alla jafnan kemur saman fjöldi fólks. Vill Lögreglan á Vesturlandi minna alla á að gæta vel að persónulegu hreinlæti og sóttvörnum. „Þó svo að ekki verði brekkusöngur eða ball á Írskum dögum verða aðrir viðburðir þar sem margir koma saman, hverfasamkomur og skemmtanir í heimahúsum. Við verðum með aukinn mannskap þessa helgi og sérsveitin verður okkur innan handar. En við sjáum að fólk er farið að slaka mikið á hvað varðar persónulegt hreinlæti og viljum við minna alla á að gleyma sér ekki. Veiran er greinilega ekki farin og besta vörnin er að þvo hendur, spritta og hugsa vel hvern er verið að faðma,“ segir Ásmundur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Ráðherra fylgir ráðgjöf Hafró

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gefið út reglugerð um leyfilegan heildarafla í íslenskri fiskveiðilögsögu fyrir næsta fiskveiðiár og... Lesa meira

Eygló Lind 70 ára

Hinn síungi Borgnesingur, Eygló Lind Egilsdóttir, fagnaði 70 árunum síðastliðinn laugardag. Sló hún til heljarinnar veislu í tilefni dagsins. Haldið... Lesa meira