Baldur bilaði í gær og mun ekki sigla næstu daga

Vélarbilun kom upp í flóabátnum Baldri þegar skipið var á siglingu yfir Breiðafjörð í gær. Tekið var land í Flatey þar sem bilanagreining hófst. Mikinn svartan reyk lagði frá vél skipsins við komuna til Flateyjar. Við bilanaleit kom í ljós að önnur af tveimur túrbínum í vél skipsins er ónýt og er búið að panta nýja erlendis frá. Farþegar sem voru um borð í Baldri fóru í land í Flatey og þurftu að bíða þar í átta og hálfa klukkustund, en voru laust eftir miðnætti í nótt fluttir með Særúnu í land í Stykkishólmi. Bílana sína fá þeir síðar. Stefnt var að sigla Baldri fyrir eigin vélarafli til Stykkishólms í nótt.

Í tilkynningu frá Sæferðum sem gera út Baldur, kemur fram að ekki verður hægt að flytja bíla milli Stykkishólms og Brjánslækjar næstu daga. Farþegabáturinn Særún mun hins vegar sigla út í Flatey og yfir á Brjánslæk ef þörf er á. Særún getur tekið allt að 115 farþega, en enga bíla. „Unnið verður hörðum höndum að viðgerð næstu daga, þegar er búið að panta varahluti og vonandi verður ferjan Baldur komin aftur í siglingar innan skamms. Við munum senda út tilkynningar um framvindu mála og reyna að upplýsa um stöðu mála á hverjum tíma,“ segir í tilkynningu frá Sæferðum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eygló Lind 70 ára

Hinn síungi Borgnesingur, Eygló Lind Egilsdóttir, fagnaði 70 árunum síðastliðinn laugardag. Sló hún til heljarinnar veislu í tilefni dagsins. Haldið... Lesa meira