Líf og fjör á Írskum dögum í fyrra.

Bæjarhátíðir víða með breyttu sniði á Vesturlandi

Bæjarhátíðir eru haldnar víða um land á sumrin og þar á meðal hér á Vesturlandi. Skessuhorn tók saman upplýsingar um helstu hátíðir landshlutans í sumar. Í ljósi ástandsins vegna Covid-19 er ljóst að hátíðarhöld verði með töluvert breyttu sniði í ár. Þá hafa hátíðir einnig verið blásnar af, bæði vegna faraldursins en einnig af öðrum ástæðum.

Brákarhátíð

Um komandi helgi verður Brákarhátíð haldin í Borgarnesi. Á morgun, fimmtudag, verður Slökkviliðið í Borgarnesi með uppákomu við Þórðargötu. Íbúar eru hvattir til að halda götugrill á föstudagskvöldinu og á laugardaginn verður ýmislegt skemmtilegt í boði í gamla bæ Borgarness. Nánari upplýsingar um hátíðina má finna í frétt og auglýsingu í Skessuhorni sem kemur út á morgun.

Heim í Búðardal

Í Búðardal verður bæjarhátíðin Heim í Búðardal, haldin helgina dagana 3.-5. júlí. Vegna Covid-19 verður hátíðin með aðeins öðru sniði í ár en lausleg dagskrá er farin að myndast fyrir hátíðina. Meðal þess sem verður í boði eru sölu- og sýningarbásar í Dalabúð á laugardeginum og ætla nokkrir íbúar að bjóða heim í kjötsúpu eða hafa kveikt á grillunum á föstudagskvöldinu. Nánari dagskrá verður hægt að finna á heimasíðu Dalabyggðar, www.dalir.is, þegar nær dregur.

Írskir dagar

Á Akranesi verða Írskir dagar venju samkvæmt fyrstu helgina í júlí, dagana 3.-5. júlí. Fjölbreytt dagskrá verður í boði fyrir alla fjölskylduna. Líf og fjör verður við Akratorg, karnival á Merkurtúni, sandkastalakeppni á Langasandi og margt fleira. Götugrillin verða á sínum stað á föstudagskvöldinu og Leikhópurinn Lotta verður venju samkvæmt í Garðalundi á sunnudeginum. Vegna Covid-19 hefur verið ákveðið að brekkusöngurinn verði í streymi að þessu sinni. Nánari upplýsingar má finna í auglýsinu á miðopnu í Skessuhorni sem kemur út í fyrramálið.

Skotthúfan

Í Stykkishólmi hafa Danskir dagar verið haldnir hátíðlegir um miðjan ágúst en nú hefur verið ákveðið að hátíðin verði aðeins haldin annað hvert ár og þá þriðju helgina í júní. Árin á móti verður Norðurljósahátíð að hausti. En Skotthúfan er einnig hátíð sem hefur fest sig í sessi í Hólminum og verður hún haldin laugardaginn 4. júlí. Meðal þess sem verður í boði á hátíðinni er kaffiboð í betri stofunni í Norska húsinu þar sem gestum í þjóðbúningum er boðið upp á kaffi og rjómapönnukökur. Sjá nánar auglýsingu í næsta Skessuhorni.

Sandara- og Rifsaragleði

Sandara- og Rifsaragleði hefur verið haldin hátíðleg í Snæfellsbæ annað hvert ár á móti Ólafsvíkurvöku. Að þessu sinni verður hátíðin haldin helgina 10.-12. júlí en vegna Covid-19 faraldursins verður hún þó með örlítið breyttu sniði. Nákvæm dagskrá hefur ekki verið gefin út en sú breyting hefur verið gerð að götum verður skipt upp í ákveðna liti.

Reykhóladagar

Hinir árlegu Reykhóladagar verða á sínum stað í ár helgina 24.-26. júlí. Ekki hefur verið gefin út nákvæm dagskrá fyrir hátíðina en ljóst er að hún verði með aðeins breyttu sniði í ár vegna takmarkana í samfélaginu á tímum kórónuveirunnar.

Nokkur messuföll

Samkvæmt upplýsingum Skessuhorns falla nokkrar bæjar- og sveitahátíðir niður að þessu sinni. Þar á meðal eru Hvalfjarðardagar, bæjarhátíðin Á góðri stund í Grundarfirði og Hvanneyrarhátíð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Ráðherra fylgir ráðgjöf Hafró

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur gefið út reglugerð um leyfilegan heildarafla í íslenskri fiskveiðilögsögu fyrir næsta fiskveiðiár og... Lesa meira

Eygló Lind 70 ára

Hinn síungi Borgnesingur, Eygló Lind Egilsdóttir, fagnaði 70 árunum síðastliðinn laugardag. Sló hún til heljarinnar veislu í tilefni dagsins. Haldið... Lesa meira