Íbúðarhúsið á Snartarstöðum brann aðfaranótt 2. júní. Nær altjón varð í brunanum og söfnun hefur verið hrundið af stað til að létta undir með fjölskyldunni. Ljósm. úr safni.

Safna fyrir fjölskylduna á Snartarstöðum

Eins og greint var frá í Skessuhorni í síðustu viku brann íbúðarhúsið að Snartarstöðum aðfaranótt 2. júní sl. Á bænum búa ung hjón ásamt þremur börnum sínum; fjögurra mánaða, fimm ára og átta ára. Mikil mildi þykir að fjölskyldan hafi sloppið án meiðsla frá brunanum en eignatjón vegna brunans er mikið. Fjölskyldan var tryggð, en tjón vegna brunans er nánast algjört og líklegt að ekki fáist allt bætt, að því er fram kemur á styrktarsíðu sem útbúin hefur verið fyrir fjölskylduna á Facebook. Vinir fjölskyldunnar og nágrannar hafa því óskað eftir því að sett verði af stað söfnun til að létta undir með fjölskyldunni.

Búnaðarfélag Lundarreykjadals safnar nú fyrir fjölskylduna á Snartarstöðum. Fólk getur styrkt fjölskylduna nafnlaust með því að leggja inn á reikning 326-22-002149, kt. 530679-0989. Stefnt er að því að afhenda fjölskyldunni afrakstur söfnunarinnar í lok sumars.

Einnig hefur verið stofnaður styrktarreikningur í nafni Guðrúnar Maríu Björnsdóttur, húsfreyju á Snartarstöðum, sem einnig má nýta til að leggja fjölskyldunni lið. Reikningsnúmer þess reiknings er 0370-22-028073, kt. 130789-3079.

Líkar þetta

Fleiri fréttir