Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. Ljósm. kgk.

„Markmiðið að hafa kjör félagsmanna eins góð og hægt er“

Örn Pálsson hefur verið framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda frá árinu 1987 og man tímana tvenna í smábátaútgerð. Skessuhorn hitti framkvæmdastjórann að máli og ræddi við hann um það sem er efst á baugi í smábátaútgerðinni. Ekki þarf að koma á óvart að þar voru umræður um strandveiðar og stöðvun grásleppuveiða áberandi, enda hvort tveggja í brennidepli og mikil hagsmunamál félagsmanna LS.

„Nú stöndum við í smá stappi í tengslum við strandveiðarnar. Á síðasta ári var  úthlutað 11.100 tonnum af óslægðum botnfiski til smábáta á strandveiðum. En við nýttum ekki allan kvótann. Það veiddust aðeins rúm níu þúsund tonn, aðallega vegna veðurs. Við hefðum átt að fá flutning 15% af ellefu þúsund tonna heildarafla þorsks yfir á þetta ár, ein 1650 tonn og eins sjálfsagt og það er hefur það ekki enn verið staðfest í reglugerð,“ segir Örn. „Heimilt er í kvótakerfinu að flytja 15% aflamarks milli ára, til að hagræða ef veiðar ganga illa eða ef verðið er lélegt,“ segir framkvæmdastjórinn. Þá má geta þess að eftir að Skessuhorn ræddi við Örn ákvað sjávarútvegsráðherra að auka heimild kvótahafa til að flytja aflamarks botnfisks milli ára úr 15% í 25% vegna Covid-19 faraldursins. Í því kerfi veiðir hver kvótahafi sinn kvóta en strandveiðarnar eru einn pottur. Honum var skipt milli 620 báta í fyrra og stefnir í að þeir verði 700 í ár.

„Ef við fáum í gegn flutning á 15% aflaheimilda síðasta árs til viðbótar við 11 þúsund króna heildarafla á þessu ári, þá ætti það að vera nóg fyrir 700 báta í fjóra mánuði. Mikið er í húfi þar sem á annað þúsund manns koma til með að hafa beina atvinnu af strandveiðum í sumar,“ segir Örn.

Rætt er við Örn Pálsson, framkvæmdastjóra LS, í Sjómannadagsblaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira