Horft yfir Stykkishólm. Súgandisey næst í mynd.

Boðað til hönnunarsamkeppni um útsýnisstað í Súgandisey

Eins og áður hefur verið greint frá er fyrirhugað að útbúa útsýnisstað í Súgandisey. Stykkishólmsbær hefur, í samstarfi við Félags íslenskra landslagsarkitekta, auglýst eftir þátttakendum í forval vegna samkeppni um hönnun staðarins. „Súgandisey er eftirsóknarverður staður fyrir heimamenn og gesti bæjarins til göngu- og náttúruuplifunar. Meðal annars er eyjan rík af fuglalífi og einstöku útsýni yfir Breiðafjörð og bæjarstæði Stykkishólmsbæjar. Auk þess fara vinsældir Súgandiseyjarvita sem myndefnis vaxandi,“ segir í tilkynningu frá Stykkishólmsbæ og FÍLA.

Í verkefninu verður leitast við að afla hugmynd að hönnun og efnisnotkun útsýnissvæðisins, sem á að gegna því hlutverki að svala forvitni þeirra sem vilja skoða þverhnípt bjarg Súgandiseyjar. Valin verða fjögur teymi til þátttöku og fær hvert greiddar 750 þús. krónur fyrir tillögur sínar. Að auki verða fimm hundruð þúsund krónur greiddar fyrir verðlaunatillöguna og stefnt að því að semja við verðlaunahöfunda um áframhaldandi hönnun útsýnisstaðarins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stykkishólmsbæ. Gerð er sú krafa að í hverju umsóknarteymi sé landslagsarkitekt, maður á lista Mannvirkjastofnunar yfir löggilda hönnuði og að teymið innihaldi a.m.k. einn sem hefur hlotið viðurkenningu eða verðlaun í skipulags- og hugmyndasamkeppnum. Vlanefnd, skipuð fulltrúum Stykkishólmsbæjar og FÍLA, mun meta hvaða teymi uppfylla skilyrði til þátttöku.

Líkar þetta

Fleiri fréttir