L’if og fjör í Búðardal. Ljósm. úr safni/sm.

Kanna möguleika á nýsköpunarsetri í Dölum

Þeirri hugmynd hefur verið varpað fram að koma á fót nýsköpunar- og frumkvöðlasetri í Dalabyggð. Málið var til umræðu á fundi byggðarráðs 28. maí síðastliðinn og var sveitarstjóra falið að vinna áfram að því. Í stuttu máli felst stofnun slíks seturs í því að útbúa aðstöðu fyrir hugmyndaríkt fólk, þar sem það gæti sinnt verkefnum sínum og raungert viðskiptahugmyndir sínar, með það fyrir augum að efla atvinnulíf innan sveitarfélagsins. Aðstöðuna gætu þeir einnig nýtt sem eiga kost á því að sinna sínum störfum í fjarvinnu.

Í minnisblaði sveitarstjóra, sem lagt var fram á fundi byggðarráðs, segir að nýsköpunarsetur gæti stuðlað að aukinni verðmætasköpun og eflingu atvinnulífs innan sveitarfélagsins Dalabyggðar. „Með nýsköpunarsetri væri ekki aðeins verið að útbúa aðstöðu heldur einnig byggja upp samfélag nýsköpunar innan Dalabyggðar sem veitti verkefnum og hugmyndum stuðning til að komast í framkvæmd,“ segir í minnisblaði sveitarstjóra.

Setrið sjálft yrði í umsjá sveitarfélagsins en samstarfs yrði leitað meðal annars við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, auk þess að kanna áhuga á samstarfi við fyrirtæki í sveitarfélaginu.

Á þessu stigi málsins er horft til húsnæðis á fyrstu hæð stjórnsýsluhúss Dalabyggðar undir nýsköpunar- og frumkvöðlasetur. Það rými er í eigu ríkisins, en stendur nú autt. „Húsnæðið mætti vel nýta fyrir nýsköpunarsetur og það auðveldar Dalabyggð að hafa umsjón með verkefninu að skrifstofur sveitarfélagsins eru í sama húsi,“ segir í minnisblaðinu, þar sem jafnframt er lagt til að óskað verði liðsinnis ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra við að koma verkefninu á rekspöl.

Líkar þetta

Fleiri fréttir