Sigurður hlaðinn viðurkenningarskjölum, hér ásamt Eyjólfi Eyjólfssyni úr menntamálaráðuneytinu. Ljósm. Grundaskóli.

Bar sigur úr býtum í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Appið „Með okkar augum“ gæti komið blindu fólki að góðum notum

Sigurður Brynjarsson, nemandi í 6. bekk EHÞ í Grundaskóla á Akranesi, hlaut í gær aðalverðlaun í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2020. Verðlaunin hlýtur hann fyrir hugmynd sína „Með okkar augum.“ Í stuttu máli snýst hugmynd Sigurðar um þróun apps (smáforrits) fyrir blinda. Appið tengist sjálboðaliðum með sjón sem geta verið staddir hvar sem er í heiminum. Ef hinn blindi er einn og er að reyna að finna hlut á heimili sínu getur hann tengt sig við appið og beðið einhvern af sjálboðaliðunum um aðstoð. Sjálfboðaliðinn tengist síma þess blinda og getur séð með sínum augum inn í íbúðina og leitað að hlutnum með því að leiðbeina hinum blinda. „Kannski væri hægt að nota þetta app líka á nokkra karlmenn sem ég þekki, sumir finna bara aldrei neitt þó að þeir séu með 100% sjón,“ segir Sigurður Brynjarsson.

Vanalega berast á milli 1500 til 2000 hugmyndir frá nemendum grunnskólanna, þannig að segja má að árangur Sigurðar sér frábær. Í frétt á vef Grundaskóla segir að í vetur hafi 6. bekkingar þurft að hugsa út fyrir kassann í nýsköpunarmennt. Að þessu sinni var töluverð breyting á umgjörð keppninnar vegna Covid-19 en bæði var keppninni seinkað og vinnustofa var ekki í boði. Það var svo dómnefnd sem valdi 20 bestu hugmyndirnar.

Eyjólfur Eyjólfsson kom fyrir hönd menntarmálaráðherra og afhenti Sigurði verðlaunin. Fram kom hjá Eyjólfi að Sigurður mun fá tækifæri til þess að þróa og vinna verkefni sitt áfram. Valdís Sigurvinsdóttir kennarinn Sigurðar sagði við þetta tækifæri vera ánægð með árangurinn en það voru nokkur fleiri verkefni frá nemendum hennar sem voru send inn til keppninnar.

Sigurður Brynjarsson ásamt félögum sínum í Grundaskóla.

Líkar þetta

Fleiri fréttir