Baldur leggur úr höfn í Stykkishólmi á blíðviðrisdegi. Ljósm. úr safni/ sá.

Baldur fer eina ferð á dag í sumar

Ferjunni Baldri verður siglt eina ferð á dag yfir Breiðafjörðinn í sumar, eftir að Sæferðum var tryggður sérstakur styrkur til siglinganna. Mannlíf greindi fyrst frá. Baldri hefur verið siglt yfir Breiðafjörðinn með ríkisstuðningi á veturna en á markaðsforsendum á sumrin. Töldu Sæferðir, sem reka ferjuna, ekki grundvöll fyrir ferjusiglingum nú í sumar vegna hruns í komu ferðamanna til landsins. Því var útlit fyrir að ekkert yrði siglt, þar til stjórnvöld komu að málinu. Fyrir helgi var svo samið við Vegagerðina um sérstakt framlag sem tryggir siglingar í sumar.

Farin verður ein ferð á dag milli Stykkishólms og Brjánslækjar, með viðkomu í Flatey, en ekki tvær eins og verið hefur undanfarin sumur. Þó er gert ráð fyrir því að hægt verði að bæta við um fimmtán aukaferðum á álagstímum í sumar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir