Meðfylgjandi mynd var tekin fimmtudaginn 28. maí síðastliðinn þegar Gísli Karel Halldórsson, fulltrúi Eyrbyggja, afhenti bæjarráði og bæjarstjóra Grundarfjarðarbæjar gögnin til að gera þau aðgengileg öllum án kostnaðar. Ljósm. aðsend.

Sögur frá Grundarfirði nú aðgengilegar á vef bæjarins

Árið 1999 stofnuðu „gamlir“ Grundfirðingar félagið Eyrbyggjar, hollvinasamtök Grundarfjarðar. Félagið setti sér metnaðarfull markmið, meðal annars að styðja við menningarstarfsemi, safna og koma á framfæri örnefnum í Eyrarsveit, safna saman lýsingum á fiskimiðum eins og þau urðu til hjá gömlum sjómönnum, safna saman sögulegum fróðleik sem tengdist svæði og samfélagi, sem og sögum frá „yngri“ Grundfirðingum.

Eyrbyggjar gáfu síðan út tíu bækur, sem fengu heitið „Fólkið, fjöllin, fjörðurinn“. Félagið lét einnig gera fjögur veggspjöld sem sýna fjallahringinn við Grundarfjörð, Kolgrafafjörð og Lárvaðal þar sem tilgreind eru örnefni svæðisins. „Við töldum mikilvægt að koma þessu á framfæri við yngra fólkið þannig að örnefni gleymdust ekki. Einnig fengum við hóp staðkunnugra Eyrsveitunga til að færa örnefni inn á loftmyndir. Þessi gögn fóru síðan til Örnefnastofnunar en við höfum ekki haft fjármagn til að láta prenta kortin og gefa þau út,“ sagði Gísli Karel Halldórsson, fyrsti formaður Eyrbyggja og stjórnarmaður til margra ára.

„Mikilvægt er að þessi gögn verði öllum áhugasömum aðgengileg. Nokkrar fyrri bækur Eyrbyggja eru nú ekki lengur fáanlegar. Eyrbyggjar ákváðu því að koma útgefnum bókum sínum á tölvutækt form og hafa nú afhent Grundarfjarðarbæ allar bækurnar á tölvutæku formi. Efnið hefur nú verið sett inn á nýjan bæjarvef Grundarfjarðarbæjar, þannig að bækurnar verði aðgengilegar öllum áhugasömum,“ segir Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir