Járnblendiverksmiðja Elkem á Grundartanga. Ljósm. úr safni/ kgk.

Viðhaldsstopp framlengt vegna stöðu á stálmörkuðum

Slökkt verður á einum ofni járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga fram á sumarið. Þegar Skessuhorn heyrði í Einari Þorsteinssyni forstjóra fyrr í vikunni var reyndar slökkt á öllum þremur, en tveir þeirra voru aðeins úti vegna hefðbundinna þátta. „Einn ofn verður úti eitthvað lengur og búast má við því að hann verði það eitthvað vel fram á sumarið,“ segir Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem, í samtali við Skessuhorn. Slökkt var á þeim ofni til að ráðast í hefðbundið viðhald, en ákveðið að lengja stoppið til að gera viðhaldsvinnuna hagkvæmari. Hún verður þannig unnin í dagvinnu en ekki á vöktum allan sólarhringinn.

Spurður um áhrif þessa á starfsmannahald næstu mánuði segir Einar að færri sumarstarfsmenn verði ráðnir til starfa hjá Elkem nú í sumar en verið hefur undanfarin ár.

Erfitt ástand á mörkuðum

Ástæðan fyrir því að ákveðið var að lengja viðhaldsstopp ofnsins nú segir Einar vera ástand á mörkuðum, sem rakið er til Covid-19 faraldursins. „Ef ekki eru keyptir bílar og ekki verið að framkvæma þá á endanum vantar ekki stál. Þá geta stálverin ekki lengur framleitt sína vöru og þá vantar þau ekki hráefni sem við framleiðum,“ segir Einar, sem vonast vitaskuld til þess að markaðir fari að glæðast á nýjan leik áður en langt um líður. „Við krossleggjum fingur að það gangi vel að koma heiminum aftur í gang,“ segir hann. Það muni líklegast ekki gerast á einni nóttu, en þó það gerðist hratt segir forstjórinn fyrirtækið vel í stakk búið að takast á við það. Birgaðastaða af fullunninni vöru sé góð og hægt væri að þjóna markaðnum í töluverðan tíma áður en framleiðsla hæfist aftur með fullum afköstum. „En þetta er bara mjög sérkennileg staða sem nú er uppi í heiminum. Við erum, eins og sóttvarnalæknir hefur oft sagt, með allt í stöðugri endurskoðun,“ segir Einar Þorsteinsson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir