Starfsmenn Veitna í lagnaskurði.

Veitur hyggja á fjölmargar framkvæmdir á Vesturlandi í sumar

Á stjórnarfundi Veitna í vor samþykkti stjórn Veitna ýmsar aðgerðir til að bregðast við þeim afleiðingum sem kórónafaraldurinn hefur haft á atvinnulíf landsins. Fyrirtækið vill sýna samfélagslega ábyrgð og auka fjárfestingar í mannaflsfrekum verkefnum sem hafa munu mikil áhrif í samfélaginu, þar á meðal hér á Vesturlandi. „Leiðarljósið er að viðhalda atvinnustigi í landinu eins og kostur er en áætlað er að aðgerðirnar skapi hátt í 200 störf á starfssvæði Veitna á suðvesturhorni landsins,“ segir í tilkynningu. Samþykkt var að auka fjárfestingar Veitna um samtals tvo milljarða króna á þessu ári. Jafnframt var samþykkt að stefna að því að auka fjárfestingar á næsta ári um allt að fjóra milljarða króna. Þessar fjárfestingar bætast við áður fyrirhugaðar fjárfestingar Veitna sem nema um níu milljörðum króna árlega. Veitur munu því fjárfesta fyrir samtals ellefu milljarða króna á þessu ári og líklega 14 milljarða króna árið 2021.

Hér má sjá hvernig Veitur ráðgera að skipta framkvæmdum á starfssvæði sínu.

Fjölmörg verkefni á Vesturlandi

Veitur hafa undanfarið skilgreint mikilvæg verkefni á Vesturlandi sem ráðist verður í á næstu tveimur árum. Framkvæmdafé hefur verið aukið um 690 milljónir króna í ár og 570 milljónir króna á næsta ári. Samtals verður því 1.260 milljónum varið í viðbótarframkvæmdir á Vesturlandi á þessu ári og næsta.

Í Borgarbyggð er áformað að bora nýja neysluvatnsholu í Grábrókarhrauni og auka lýsingu á neysluvatni. Einnig verða endurbætur gerðar á vatnsbóli við Hvanneyri. Hitaveituframkvæmdir felast í endurnýjun safnlagna hitaveitu við Deildartungu og endurnýjun á Deildartunguæð við Grjóteyri og Hvanneyri. Mikil uppbygging hefur verið í fráveitu í Borgarnesi á síðustu árum og verður nú farið í að tengja síðustu húsin í bænum við hana. Gert er ráð fyrir að þessar framkvæmdir allar kosti 440 milljónir króna.

Á Akranesi er í bígerð að taka upp nýtt vatnsból og byggð verður ný starfsstöð Veitna á Vesturlandi og verður hún byggð í Flóahverfi á Akranesi. 620 milljónum króna verður varið í þessi verkefni.

Í Grundarfirði verður sett upp lýsingartæki við vatnsból og reistar girðingar til að tryggja gæði neysluvatns. Einnig verður farið í viðhald á vatnstanki. Áætlað er að þessi verkefni kosti um 60 milljónir króna.

Afla á viðbótarvatns í Stykkishólmi og koma upp varavatnsbóli fyrir bæinn. Það kostar 70 milljónir króna.

Auk þessara framkvæmda verður farið í ýmis minni verkefni á Vesturlandi til að bæta rekstraröryggi og þjónustu, efla vatnsvernd og tryggja auðlindir til framtíðar og verða um 200 milljónir króna settar í þau, samkvæmt tilkynningu frá Veitum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir