Guðmundur Gunnþórsson, Gummi Gussa, er hér að ísa grásleppuna. Ljósm. sá.

Skammvinn grásleppuvertíð er nú í gangi

Síðastliðinn miðvikudag hófust grásleppuveiðar í Breiðafirði samkvæmt sérstöku tímabundnu leyfi sem sjávarútvegsráðherra gaf til veiða þar, þegar hann tilkynnti að öðrum grásleppuveiðum yrði hætt 3. maí. Bátum með veiðireynslu á Breiðafirði er nú heimilt að veiða allt að 15 tonn á þessari stuttu vertíð. Jafnframt talaði ráðherra skýrt um það á fundi með grásleppuveiðimönnum í byrjun mánaðarins að veiðarnar yrðu stöðvaðar ef í ljós kæmi að þær yrðu óhóflegar eins og það var orðað.

Meðfylgjandi mynd var tekin í Stykkishólmshöfn á laugardaginn. Verið var að landa fallegri grásleppu úr Öbbu SH. Þeir sjómenn sem fréttaritari ræddi við sögðu veiðarnar ganga vel. Netin voru lögð miðvikudaginn 20. maí og voru flestir með löndun úr fyrstu vitjunum á föstudag eða laugardag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir