Hreppslaug í Skorradal. Ljósmyndir úr safni.

Nýtt laugarhús verður byggt við Hreppslaug

Næsta haust og vetur stendur til að byggja nýtt laugarhús við Hreppslaug í Skorradal. Laugin sem byggð var á árunum 1928-29 var friðuð 2014 vegna sögulegs gildis hennar. Hafa félagar í Ungmennafélaginu Íslendingi hlúð vel að henni í áranna rás og hafa nú með stuðningi sveitarfélaganna á svæðinu ákveðið að ráðast í byggingu nýs laugarhúss og endurbætur á pottasvæðinu.

Kristján Guðmundsson tók nýverið við formennsku í Ungmennafélaginu Íslendingi sem á og rekur laugina. Hann segir í samtali við Skessuhorn að félagið muni standa að byggingu nýs laugarhúss í haust en opið verður í laugina fram yfir verslunarmannahelgi í sumar. Kristján segir að Skorradalshreppur leggi félaginu til myndarlegan stuðning vegna hússins. „Við byggjum 160 fermetra laugarhús á sama byggingarreit og núverandi laugarhús er, en það er um 100 fermetrar og orðið ansi lúið. 160 fermetrar er í rauninni lágmarksstærð á laugarhúsi til að standast allar nútímakröfur um mannvirki af þessu tagi. Markmið okkar er svo að verða tilbúin með húsið fyrir næsta sumar.“

Þá segir Kristján að pottasvæðið við laugin verði sömuleiðis endurnýjað og hafi sveitarfélagið Borgarbyggð ákveðið að leggja því verkefni lið.

Hreppslaug verður opnuð nú um hvítasunnuhelgina. Í sumar verður að sögn Kritjáns opið þriðjudaga til föstudaga klukkan 18-22 en laugardaga og sunnudaga kl. 13-22.

Líkar þetta

Fleiri fréttir