Saunatunna sambærileg þeirri sem Neistamenn safna nú fyrir. Þessi stendur við veiðihúsið við Helgavatn í Þverárhlíð. Ljósm. mm.

Safna fyrir gufubaði til að lykta ekki eins illa

Í kjölfar gróðureldanna í Norðurárdal á mánudaginn í síðustu viku var tekin ákvörðun í hópi slökkviliðsmanna í Borgarbyggð. „Eftir svona langt og strangt slökkvistarf eins og í Norðurárdal verða menn illa súrir og lyktandi þegar heim er komið. Staðreyndin er nefnilega sú að nær ómögulegt er að hreinsa lyktina af sér í venjulegri sturtu eða heitu baði. Maður er jafnvel næstu tvo, þrjá daga að glíma við hálfgerða eitrun í gegnum húðina og líðanin eins og slæm þynnka eftir fyllerí. Það er hins vegar hægt að hreinsa þetta af sér með því að fara í gufubað eða sauna. Því tókum við félagarnir í Neista, félagi slökkviliðsmanna í Borgarbyggð, ákvörðun um að hefja söfnun fyrir saunatunnu. Hún verður staðsett við hlið slökkvistöðvarinnar við Sólbakka og í hana geta menn farið eftir svona löng útköll til að leggja sig í bleyti í heitri gufu og hreinsa húðina,“ segir Þórður Sigurðsson aðalvarðsstjóri hjá Slökkviliði Borgarbyggðar í samtali við Skessuhorn. „Með því að fara í heitt gufubað er hægt að hreinsa út úr svitaholunum eiturefni, sem jafnvel eru krabbameinsvaldandi, en loða annars við mann í einhverja daga eftir svona slökkvistarf. Sót og reykur getur verið algjör viðbjóður og hvorki okkur né fjölskyldum okkar gerandi að koma illa lyktandi og óhreinir heim eftir svona útköll.“

Þórður segir að slökkviliðsmenn séu nú að safna fyrir kaupum á saunatunnu með því að taka að sér hreinsun bílastæða við bensínstöðvarnar í Borgarnesi, en aðspurður segir hann að slökkviliðsmenn slái hreint ekki höndunum á móti stuðningi frá almenningi eða fyrirtækjum ef einhverjir vilji leggja söfnuninni lið. „Þeir sem vilja styrkja okkur við þessa söfnun geta haft samband við okkur félagana í Neista,“ segir Þórður, eða lagt inn á reikning:

0326-13-110396 og kt: 450310-0260.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eygló Lind 70 ára

Hinn síungi Borgnesingur, Eygló Lind Egilsdóttir, fagnaði 70 árunum síðastliðinn laugardag. Sló hún til heljarinnar veislu í tilefni dagsins. Haldið... Lesa meira