Vill ekki falla frá útboði tollkvóta á landbúnaðarafurðir

Bændasamtök Íslands sendu Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra erindi í lok apríl þar sem farið var fram á tímabundið frávik frá úthlutun tollkvóta sem kveðið er á í samningi við ESB um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Samtökin lögðu til að fallið yrði frá útboði á tollkvótum í maí fyrir tímabillið júlí til desember 2020. Í vikunni barst svarbréf frá ráðherra þar sem erindinu er hafnað á þeim grundvelli að ekki sé heimilt að falla frá úthlutun tollkvóta vegna ákvæða í tollasamningi milli Íslands og Evrópusambandsins. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ákveðið að ráðast í úttekt á samningnum og í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um hvort óskað verði eftir viðræðum við ESB um endurskoðun tollasamningsins.

Ástæður þess að Bændasamtökin óskuðu eftir því að fallið yrði frá úthlutun tollkvóta tímabundið voru fyrst og fremst áhrif COVID-19 faraldursins. Mikil fækkun ferðamanna hefur áhrif á neyslu matvæla hér á landi en stækkun tollkvótanna með samningi árið 2015 var ekki síst réttlætt með vaxandi fjölda ferðamanna sem innlend framleiðsla gæti ekki annað. Þær forsendur eru að engu orðnar núna að mati samtakanna. BÍ bentu ráðherra á að úthlutun tollkvóta með óbreyttum hætti, þegar eftirspurn er verulega minni en áður, myndi grafa undan innlendri framleiðslu og mögulega veikja stoðir hennar verulega. Íslenskt atvinnulíf þyrfti ekki á því að halda í þeirri djúpu efnahagslægð sem landið er nú í, eins og fram kemur í erindi BÍ.

Líkar þetta

Fleiri fréttir