Fé rekið til réttar. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Ljósm. úr safni/ sá.

Samið um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum

Samningar hafa tekist við dýralækna í dreifðum byggðum um að sinna nauðsynlegri dýralæknaþjónustu til næstu fimm ára. Samhliða voru gerðir verkkaupasamningar við dýralækna um að sinna opinberum störfum fyrir Matvælastofnun. Gerir það stofnuninni kleift að fækka héraðsdýralæknum og hagræða í rekstri.

Samningar við dýralækna koma í kjölfarið á starfi starfshóps sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði á síðasta ári, um þjónustu dýralækna í dreifðum byggðum og vaktþjónustu dýralækna. Hlutverk hópsins var að endurskoða skipulag þjónustu í dreifðum byggðum sem og vaktþjónustu dýralækna. Meginmarkmiðið var að tryggja aðgengi að dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum og vaktþjónustu utan dagvinnutíma á hagkvæman og aðgengilegan hátt með velferð dýra að leiðarljósi.

Aukið aðgengi að dýralæknum

Í ráðuneytinu er samhliða þessu unnið að endurskoðun reglugerðar um Matvælastofnun. Með setningu hennar er stefnt að fækkun umdæma stofnunarinnar úr sex í fjögur, eigi síðar en í árslok 2021. Þjónustusvæði dýralækna verða hins vegar níu með ellefu fullar staðaruppbætur fyrir dýralækna. Fækkun umdæma MAST byggir á möguleikum stofnunarinnar til að kaupa þjónustu af dýralæknum sem samið hefur verið við. Vegna dýralæknaþjónustu var samið við sex dýralækna og fjögur fyrirtæki þar sem starfa tveir eða fleiri dýralæknar. Stofnunin gerði síðan verkkaupasamninga við sextán dýralækna.

Með nýrri reglugerð um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum er þjónustusvæðum fækkað úr tíu í níu, en fullar staðaruppbætur verða þó ellefu talsins, en voru tíu áður. „Með þessu fyrirkomulagi skapast viðunandi starsskilyrði fyrir dýralækna þannig að þeim hugnist að starfa í dreifðum byggðum landsins. Nýtt skipulag dýralæknaþjónustu felur í sér aukið aðgengi að dýralæknum og komið er á samstarfi við Matvælastofnun, sem skapar aukna tekjumöguleika fyrir þjónustudýralækna. Þeim er jafnframt tryggður réttur til fjarveru vegna veikinda og orlofs og þak er sett á vaktskyldu þeirra,“ segir í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Millibilsástand á Vestursvæði

Fyrirhuguð fækkun umdæma Matvælastofnunar úr sex í fjögur, sem gert er ráð fyrir í nýrri reglugerð um Matvælastofnun, hefur það í för með sér að Vestursvæði, sem samanstendur af Vesturlandi og Vestfjörðum, verður að líkindum skipt upp. Borgarfjarðarsvæðið og Snæfellsnes munu þá renna inn í Suðvesturumdæmi og Dalir og Vestfirðir inn í Norðvesturumdæmi.

Reglugerðin er sem fyrr segir í endurskoðun hjá ráðuneytinu og þessi skipting tekur ekki gildi fyrr en hún hefur verið samþykkt. Þangað til verður Vesturumdæmi óbreytt og það gerir það að verkum að ákveðið millibilsástand skapast. Elísabet Hrönn Fjóludóttir lét af störfum héraðsdýralæknis í umdæminu 1. maí síðastliðinn og vegna fyrirhugaðrar fækkunar umdæma verður ekki auglýst eftir nýjum héraðsdýralækni í hennar stað. Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir mun sinna störfum héraðsdýralæknis í Vesturumdæmi þangað til breytingin verður samþykkt. „Starfsmenn umdæmisins, Kristín Þóra Þórhallsdóttir eftirlitsdýralæknir og Guðlaugur Antonsson dýraeftirlitsmaður, munu sinna sínum störfum áfram. Ef það þarf að afgreiða einhver embættisverk sem Kristín getur ekki sinnt á meðan þetta millibilsástand varir, þá mun ég gera það,“ segir Sigurborg í samtali við Skessuhorn.

Mikil kerfisbreyting

Sigurborg segir að með þjónustusamningunum og fyrirhugaðri fækkun embætta muni heilmikil kerfisbreyting eiga sér stað. „Af því að við erum búin að semja um að kaupa verk af þjónustudýralæknum sem eru starfandi í dreifðum byggðum þá getum við sagt að við þurfum ekki héraðsdýralækna staðsetta í þessum dreifðu byggðum, af því fólk hefur aðgang að hinum dýralæknunum;“ segir hún. „Með því að fækka umdæmum úr sex og í fjögur fækkar um tvo héraðsdýralækna í landinu. Það er ákveðin hagræðing fólgin í því en á móti kemur að verkin fara ekki heldur mun Matvælastofnun kaupa þá þjónustu af dýralæknunum sem eru á staðnum. Með því er bæði verið að styrkja og þétta aðgengi að dýralæknum og styðja betur við afkomumöguleika þeirra dýralækna sem starfa í dreifðum byggðum landsins, samhliða hagræðingu hjá Matvælastofnun,“ segir Sigurborg að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir