Brynjar Bergsson og Anna Lísa Hilmarsdóttir á Refsstöðum framan við væntanlega veitingastaðinn Rím.

Rím á Refsstöðum verður opnað í sumar

Í júní á síðasta ári var stórt og mikið eldra hús tekið af stalli sínum á Akureyri og flutt í tveimur hlutum að Refsstöðum í Hálsasveit. Hús þetta var byggt árið 1938 og hýsti lengst af bátasmiðju á Eyrinni. Hjónin Anna Lísa Hilmarsdóttir og Brynjar Bergsson keyptu húsið og fluttu á melinn vestan við stórt fjós þeirra á Refsstöðum. Þar höfðu þau fengið stöðuleyfi fyrir húsið, enda eru slík leyfi forsenda fyrir að flytja megi hús. Síðan tók við undirbúningur að grunni fyrir húsið, ferill teikninga og útvegun þeirra leyfa sem þarf. Nú hefur verið steyptur grunnur og plata og búið að koma húsinu á varanlegan stall. Auk þess var byggð fjögurra metra tengibygging milli húshlutanna þannig að nú er grunnflötur hússins 160 fermetrar og manngengt loft að auki undir súð. Áætlanir þeirra hjóna hafa frá upphafi verið að opna þar nýtt ferðaþjónustufyrirtæki í sumar. En á því tæpa ári sem liðið er frá flutningi hússins suður fyrir heiðar hafa ófyrirséðar hindranir orðið á vegi þeirra. Bæði kom afturkippur í fjármögnun sem rekja má til þess að viðskiptabankinn dró í land með lánsloforð vegna bakslags í ferðaþjónustu á landsvísu sem rekja má til Covid-19. En til að bæta gráu ofan á svart elda þau grátt silfur við byggingafulltrúa sveitarfélagsins. Ætla þau engu að síður að halda áætlun og stefna á að opna veitingastaðinn Rím í sumar. „Við vonum hið besta en erum mjög hugsi yfir því að „kerfið“ er ekki að vinna nógu vel með þeim sem vilja framkvæma og skapa ný störf. Kerfið á þvert á móti að vera hjálplegt og greiða götu fólks í hvívetna. Það er í það minnsta okkar skoðun,“ segja þau. Sest var niður með þeim Brynjari og Önnu Lísu á Refsstöðum undir lok síðustu viku og viðtal við þau er í Skessuhorni vikunnar.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir