Frá afhendingu gjafanna síðastliðinn fimmtudag. F.v. Þóra Björk Kristinsdóttir, Sonja F. Jónsson, Sólrún Engilbertsdóttir og María Kristín Óskarsdóttir frá Eðnu. Þá Arndís Halla Guðmundsdóttir deildarstjóri starfsbrautar og Steinunn Inga Óttarsdóttir skólameistari FVA.

Lionskonur færðu starfsbraut FVA fjórar spjaldtölvur

Konur í Lionsklúbbnum Eðnu á Akranesi komu færandi hendi í Fjölbrautaskóla Vesturlands nýverið. Tilefnið var að færa skólanum að gjöf fjórar nýjar spjaldtölvur en þær verða notaðar til kennslu á starfsbraut skólans. Það voru þær Arndís Halla Guðmundsdóttir deildarstjóri á starfsbraut og Steinunn Inga Óttarsdóttir skólameistari sem veittu gjöfinni viðtöku og þökkuðu Eðnukonum kærlega fyrir hlýjan hug og rausnarskap.

Við þetta tækifæri sagði Arndís Halla stuttlega frá því hvernig spjaldtölvur eru notaðar til kennslu og afþreyingar á starfsbrautinni. Bæði er kennt með aðstoð tölva hefbundnar námsgreinar á borð við stærðfræði og íslensku, ýmis gagnvirk verkefni eru unnin í tölvunum en einnig lestur rafbóka, videóklippingar unnar í þeim og fjölmargt fleira. Sagði hún þessi tæki því afar hentug til kennslu en starfsbrautin býr nú yfir sex nýjum spjaldtölvum. Nemendur sem skráðir eru á starfsbraut skólans er 23 og þar af ellefu sem alfarið stunda nám sitt þar.

Gefandi félagsskapur

Lionsklúbburinn Eðna er 23 ára og eru félagsmenn 25 á öllum aldri. Að sögn Maríu Kristínar Óskarsdóttur forseta klúbbsins er það markmið Eðnukvenna að styðja við góð málefni í nærsamfélaginu. Hvetur hún áhugasaman konur um að ganga til liðs við klúbbinn og lofar skemmtilegu og gefandi starfi. Helsta fjáröflun klúbbins er svokallaður sveltifundur sem haldinn er í febrúar. Nafnið er þó engan veginn lýsandi, því á sveltifundi bjóða félagskonur vinkonum sínum til mikillar veislu. Gestirnir eru þó borgandi og boðið er upp á góðar veitingar, happdrætti og annað til fjáröflunar fyrir starf klúbbsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir