Trillan Abbadís var mjög vinsælt leiktæki. Ljósm. aðsend.

Leita að nýju leiktæki til að taka við af Abbadís í Ölveri

Ölver er við rætur Hafnarfjalls og þar hafa um margra ára skeið verið starfræktar sumarbúðir, aðallega fyrir stúlkur, á vegum KFUM og KFUK. Sumarbúðirnar hafa verið mjög vinsælar og hefur skráning síðustu ár verið mjög góð. Að sögn Ernu Bjarkar Harðardóttur, gjaldkera í stjórn, eru margar stúlkur sem koma ár eftir ár í Ölver. Í Ölveri er unnið með góðu gildi Biblíunnar, farið í gönguferðir, haldnar kvöldvökur og sungið. Borðaður hollur og góður matur, farið í leiki, spilað, spjallað og haft gaman. „Dagarnir í Ölveri eru viðburðaríkir og dagskráin fjölbreytt. Daglega er morgunstund og biblíulestur, brennókeppni og aðrar íþróttakeppnir. Þá eru æfð leikrit og sýnd á kvöldvöku og svo er heiti potturinn alltaf vinsæll,“ segir Erna.

Tómlegt á útisvæðinu

Nokkur sorg ríkir nú meðal þeirra sem elska búðirnar því tvö af vinsælustu leiktækjunum eru farin. Annars vegar risastórt hengirúm sem var orðið ónýtt og þurfti að taka niður og hins vegar báturinn Abbadís. „Abbadís var gömul trilla sem var komið fyrir á útisvæðinu okkar og krakkarnir gátu leikið sér í. Hún var gefin hingað þar sem fyrri eigendur voru hættir að nota hana og gáfu hana því upp í Ölver. Þessi bátur var rosalega vinsælt leiktæki og er mikill söknuður af honum,“ segir Erna, en það þurfti að fjarlægja bátinn því hann var orðinn illa farinn og ekki lengur öruggt að leika í honum. „Við höfum verið að leita að öðru sambærilegu, bát eða einhverju óhefðbundnu sem krakkarnir gætu haft gaman að en það er ekki um margt að velja. Við erum ekki hagnaðardrifið félag og því ekki mikill peningur til að fjárfesta í slíku leiktæki,“ segir hún. Ef einhver veit um bát eða annað skemmtilegt sem gæti þjónað hlutverki leiktækis sem viðkomandi vill leyfa stúlkunum í Ölveri að njóta má hafa samband við Ernu í netfangið ernabjork@gmail.com eða í síma 691-2510.

Líkar þetta

Fleiri fréttir