Heilsugæslustöð HVE í Borgarnesi.

Læknaskortur útskýrir langan biðtíma í Borgarnesi

Nú þegar kórónufaraldurinn hefur gengið yfir heiminn hefur sérstaklega mikið álag verið á heilbrigðiskerfið okkar og þá framlínustarfsmenn sem þar starfa. Í Borgarnesi hefur borið á því undanfarið að erfitt hefur verið að fá tíma hjá heimilislækni en að sögn Lindu Kristjánsdóttur, yfirlæknis Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Borgarnesi, skýrist það af manneklu. Einn sérfræðilæknir í 40% starfi hjá HVE í Borgarnesi varð að hætta þar þegar Covid-19 barst til landsins því hann starfaði einnig á Landsspítalanum og mátti ekki lengur starfa á tveimur stöðum.

„Við höfum verið tveir læknar hér í fullu starfi og vegna kórónuveirunnar höfum við þurft að skiptast á að mæta á stofuna, annar læknirinn hér og hinn heima,“ útskýrir Linda. Þriðji læknirinn á stofunni hætti núna 8. maí og ekki er von á öðrum lækni í hans stað fyrr en í lok júní. „Við erum núna tvær að sinna rúmlega þriggja lækna stöð í um 4000 manna héraði og þess vegna er smá bið eftir tíma,“ segir Linda en leggur áherslu á að öll bráðatilfelli fái strax þjónustu. „Alla daga er vakthjúkrunarfræðingur sem heyrir í þeim sem telja sig ekki geta beðið eftir að hitta lækni. Hjúkrunarfræðingurinn getur þá kallað fólk inn, tekið blóð- eða þvagprufur og metur svo hvort það þurfi að fá viðtal við lækni líka,“ segir Linda og bætir við að þurfi fólk að hitta lækni samdægurs eigi það að hringja á heilsugæslustöðina og láta vita af því en ekki bara bóka næsta lausa tíma.

Aðspurð segir Linda þetta ekki í fyrsta skipti sem starfsstöð HVE í Borgarnesi sé undirmönnuð en það sé lítið hægt að gera ef ekki fást læknar þar til starfa. „Við erum lítil stöð og það hefur mikið að segja þegar það vantar lækni, jafnvel bara þó einn læknir sé veikur í einn dag. Við erum að jafnaði að hitta 11-14 skjólstæðinga á dag og taka níu símatíma, hver læknir, svo ef maður dettur út einn dag vegna veikinda þarf að finna öllum þessum einstaklingum nýja tíma og þetta getur haft rosalega mikið að segja,“ segir Linda. „Ef við náum að vera alltaf allavega þrír læknar í húsi er biðtíminn ekki mikill.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir