Samkomusalurinn, Kringlan og heimavistarbyggingin hafa nú verið friðlýst. Framan við húsin er listaverkið Lífsorkan eftir Ásmund Sveinsson.

Elstu byggingar á Bifröst nú friðlýstar

Búið er að friðlýsa elstu skólahúsin á Bifröst í Borgarfirði. Það var Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem tók ákvörðun þar að lútandi að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands. Friðlýsingin tekur til ytra borðs samkomuhúss frá 1950, veggfastra innréttinga í samkomusal og setustofu samkomuhúss, Kringluna, ytra borðs tengigangs milli samkomuhúss og gistiálmu auk veggmyndar á tengigangi eftir Hörð Ágústsson listmálara.

„Samkomuhúsið á Bifröst er mikilvægt og vel varðveitt dæmi um höfundaverk Sigvalda Thordarson og samstarfsmanna hans, Gísla Halldórssonar og Kjartans Sigurðarsonar, frá upphafsárum þeirra starfsferils. Ekki síst á það við innréttingar og búnað í samkomusal og setustofu, sem varðveist hefur í nær upprunalegri mynd allt til dagsins í dag,“ sagði ráðherra og afhenti þvínæst Vilhjálmi Egilssyni rektor friðlýsingarskjölin í samsæti síðdegis í gær.

Í ávarpi sem Vilhjálmur Egilsson flutti við þetta tilefni kom fram að það hafi verið að forgöngu Hollvinasamtaka skólans að búið er að lagfæra ytra byrði og glugga gamla skólahússins og látið endurgera listaverkið Lífsorkuna eftir Ásmund Sveinsson. Félagið hefur auk þess beitt sér fyrir friðlýsingu húsanna, með Reyni Ingibjartsson Bifresting í broddi fylkingar.

Samkomuhúsið er elsta byggingin á Bifröst, þá samkomu- og veitingastaður í eigu Sambands íslenskra Samvinnufélaga, þegar Samvinnuskólinn flutti þangað í land Hreðavatns í Norðurárdal árið 1955. Fyrsti vísir að byggingum á staðnum var að forgöngu heimamanna sem byrjuðu að byggj glæsilegan veitingastað á árunum eftir 1946. Samvinnuhreyfingin keypti svo mannvirkin 1951 og hélt þar aðalfund sinn. Skólinn hafði fram til 1955 verið til húsa á Sölvhólsgötu í Reykjavík þar sem nú eru skrifstofur mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þegar Samvinnuskólinn tók við samkomuhúsinu hafði verið reist við það viðbygging með tengigangi, þrílyft heimavistarálma, teiknuð af Skúla H. Norðdahl. Heimavistarbyggingin var upphaflega hönnuð sem hótel við veitingastaðinn sem þá var risinn og þar var á sinni tíð nútímalegustu hótelherbergi hér á landi, með snyrtingu og baði á stærri herbergjum. Saman mynda samkomusalurinn og gamla heimavistin fallega og samræmda heild og hafa einkennt ásýnd Bifrastar. Sunnan við skólahúsin var reyndar byggð þriggja hæða L-laga íbúðabygging í byrjun aldarinnar, Sjónarhóll, sem hefur verið þyrnir í augum þeirra sem telja að þar með hafi verið farið illa með hina fallegu staðarmynd sem gömlu skólahúsin eru.

Vilhjálmur Egilsson, Lilja D Alfreðsdóttir, Margrét Jónsdóttir Njarðvík væntanlegur rektor og Reynir Ingibjartsson félagið í Hollvinasamtökum skólans. Þau standa við Lífsorku Ásmundar Sveinssonar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir