Frá móttöku gjafarinnar. F.v. Þura Björk Hreinsdóttir hjúkrunarframkvæmdastjóri, Katarina Anna Schumacher fæðinga- og kvensjúkdómalæknir, Hrafnhildur Guðmundsdóttir deildarstjóri, Þórný Alda Baldursdóttir gjaldkeri Lionsklúbbsins Hörpu og Hrund Þórhallsdóttir yfirlæknir.

Lionsklúbbar gefa fæðingarúm til HVE á Akranesi

Á dögunum færðu Lionsklúbbar á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Vesturlands fæðingadeildinni á Akranesi nýjan fæðingabekk að gjöf. Verðmæti gjafarinnar er um 2,7 milljónir króna. Það var Lionsklúbburinn Harpa í Stykkishólmi sem fékk ábendingu um það í vetur að komið væri að endurnýjun á fæðingabekkjum deildarinnar, en ætla má að velflestir nýfæddir íbúar svæðisins líti þar fyrst dagsins ljós. Hörpukonur leituðu eftir samstarfi við aðra Lionsklúbba á svæðinu og var því vel tekið. Það var svo Þórný Alda Baldursdóttir, gjaldkeri Lionsklúbbsins Hörpu, sem afhenti gjöfina nýverið fyrir hönd klúbbanna.

Gefendur eru eftirtaldir Lionsklúbbar: Lkl. Agla í Borgarnesi, Lkl. Akraness, Lkl. Bjarmi á Hvammstanga, Lkl. Borgarness, Lkl. Búðardals, Lkl. Búðardals, Reykhóladeild, Lkl. Eðna á Akranesi, Lkl. Harpa í Stykkishólmi, Lkl. Hólmavíkur, Lkl. Nesþinga á Hellissandi, Lkl. Ólafsvíkur, Lkl. Rán í Ólafsvík, Lkl. Stykkishólms og Lkl. Þernan á Hellissandi.

Við leggjum lið

„Lionsklúbbar eru mikilvægir í sínum samfélögum þegar á þarf að halda og eru kjörorð hreyfingarinnar ,,Við leggjum lið“. Flestir klúbbanna leggja mesta áherslu á að styrkja og styðja við nærsamfélag sitt en Lionshreyfingin á Íslandi er einnig hluti af stærstu hjálparsamtökum í heimi sem hafa yfir sjóðum að ráða sem koma til hjálpar þegar t.d. hamfarir verða í heiminum, nú síðast vegna Covid-19 faraldursins,“ segir Elísabet Lára Björgvinsdóttir, formaður Lkl. Hörpu í Stykkishólmi. Hún segir Lionsfélaga hafa í fjáröflunarverkefnum sínum notið velvildar og vilja þeir þakka fyrir það traust sem þeim er sýnt. „Þetta er skemmtilegur félagsskapur þar sem hjálpsemi og vinátta er undirstaðan. Í Lions öðlast félagar félagslega þjálfun og þar fer einnig fram fræðsla. Ef fólk telur sig geta átt samleið með Lionsklúbbunum þá er um að gera að setja sig í samband við einhvern félaga. Upplýsingar um Lionsklúbba má sjá á síðu hreyfingarinnar lions.is og margir klúbbar hafa einnig facebook síður,“ segir Elísabet Lára.

Líkar þetta

Fleiri fréttir