Fjörutíu ára fermingarafmæli

Þann 18. maí árið 1980 voru þessir fjórir piltar á myndunum fermdir í Innra-Hólmskirkju í Innri-Akraneshreppi. Réttum fjörutíu árum síðar var ákveðið að endurtaka myndatökuna og stillt upp líkt og forðum. Að vísu er sóknarpresturinn, séra Jón Einarsson í Saurbæ, fallinn frá fyrir 25 árum, en var vafalítið með þeim í anda þegar síðari myndin var tekin. Á meðfylgjandi mynd freistuðu drengirnir þess að vera með sem líkasta uppstillingu hvað líkamsbeitingu varðar. „Það skemmtilega er hvað þetta endurspeglar karakterana í myndefninu; Ingólfur Valdimarsson sýnir kurteisislegt og vinalegt bros, Pétur Ottesen drýpur höfði af hógværð og feimni við myndavélina, Gísli Rúnar að horfa á einhverja stelpu við hlið ljósmyndarans og Haraldur Benediktsson greinilega búinn að henda einhverri háðsglósu inn í hópinn,“ skrifaði Pétur Ottesen, af hógværð og bætir við: „En lífið hefur farið bærilega með okkur og öllum hefur okkur auðnast að fóta okkur vel eftir að við komumst í fullorðinna manna tölu.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir