Stafholtskirkja í Borgarfirði.

Brauð laust í Borgarfirði

Töluverðar mannabreytingar eru nú framundan í stétt presta í Borgarfirði. Biskup Íslands auglýsti nýverið laust til umsóknar embætti sóknarprests í Stafholtsprestakalli. Sr. Brynhildur Óla Elínardóttir var fyrir réttu ári ráðin sóknarprestur Stafholtsprestakalls tímabundið til eins árs. Umsóknarfrestur um starfið er til og með 2. júní næstkomandi. En það er víðar en í Stafholti sem breytingar eru í vændum. Séra Flóki Kristinsson sóknarprestur á Hvanneyri lætur að óbreyttu af þjónustu sóknarprests 1. júní næstkomandi. Starf sóknarprests þar hefur ekki verið auglýst. Síðar á þessu ári mun annað embætti sóknarprests í héraðinu losna, en í desember verður sr. Geir Waage sóknarprestur í Reykholti 70 ára og lætur hann af embætti um áramót. Geir hefur þjónað sem sóknarprestur í Reykholti í rúm fjörutíu ár. Innan tíðar verða því fleiri brauð laus í Borgarfirði. Uppi hafa verið ólíkar hugmyndir um sameiningu prestakalla í héraðinu og liggur fyrir að biskupafundur og kirkjuþing þurfa að taka ákvörðun um framtíðar skipan prestakalla í héraðinu.

Tekið er fram í auglýsingu Biskupsstofu um embætti sóknarprests í Stafholti að fyrirvari sé gerður um ráðningu þar sem unnið er að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall án fækkunar presta. „Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing er varða m.a. Stafholtsprestakall og sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestakalla í prófastsdæminu, hljóti þær samþykki kirkjuþings,“ eins og það er orðað í auglýsingu Biskupsstofu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir