Eldurinn breiðist nú út um viðkvæmt land í úfnu apalhrauni, kjarri- og mosavöxtnu. Ljósmyndir: mm

Myndasyrpa – Búist við að gróðureldar logi í Norðurárdal fram á nótt

Um áttatíu manns frá Slökkviliði Borgarbyggðar, Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar auk björgunarsveita og lögreglu eru nú á vettvangi í Norðurárdal í Borgarfirði þar sem umfangsmiklir gróðureldar blossuðu upp snemma í kvöld. Eldar logar á nokkurra hektara svæði á milli Norðurár og þjóðvegarins, mitt á milli Laxfoss og Paradísarlautar. Þar skiptist á úfið mosavaxið hraun og kjarrlendi. Svæðið er afar erfitt yfirferðar og því aðstæður til slökkvistarfs með versta móti. Slökkvibílar komast því ekki að eldinum nema af tveimur stöðum, annars vegar frá þjóðveginum og hins vegar frá malarnámu skammt vestan við Tröð. Slökkviliðsmenn hafa þó náð árangri með að sprauta á eldglæðurnar og segja má að austan sé að takast að halda eldinum í skefjum með bæði vatni og One-Seven froðu. Bót í máli er að suðlægur vindur er fremur hægur á svæðinu. Vestan við eldana er ekki hægt að koma nokkru tæki nálægt og því má búast við að í nótt brenni talsvert landflæmi til viðbótar. Að sögn Bjarna Kristins Þorsteinssonar slökkviliðsstjóra er einkar erfitt að eiga við elda í grónu hrauni þar sem hraunið sjálft er gisið og því blæs í gegnum það súrefni til eldsmatar.

Lögregla og björgunarsveitir stýra umferð framhjá vettvangi enda bæði blint á þjóðveginum og einnig til að verja menn sem sinna slökkvistarfi frá veginum. Umerð er einungis leyfð í aðra áttina í einu og fara björgunarsveitarmenn fyrir bílalestunum. Von er á auknum mannskap til aðstoðar slökkviliðsmönnum úr Borgarbyggð og Akranesi, en Brunavarnir Suðurnesja hafa sent mannskap og tæki áleiðis upp í Borgarfjörð.

Flugumferð er nú bönnuð yfir svæðinu í fimm kílómetra radíusi, þar sem slökkviliðsmenn nota dróna til að meta umfang og útbreiðslu eldsins.

Engin mannvirki eru á svæðinu sem brennur. Ljóst er að gríðarlegt tjón er að eiga sér stað á viðkvæmum gróðri en þetta er almennt talið eitt fegursta svæðið í Grábrókarhrauni, óspillt og fagurt yfir að líta.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á vettvangi kl. 20-21:30 í kvöld.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir