Skrifað var undir endurnýjaðan samning í hesthúsinu að Mið-Fossum í gær. Ármann Fr. Ármannsson skrifar undir fyrir hönd Ingimundar hf. og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands. Ljósm. LbhÍ.

Endurnýjun leigusamnings um Mið-Fossa og skoða kaup

Undanfarin fjórtán ár hefur Landbúnaðarháskóli Íslands leigt reiðhöll og tengda aðstöðu að Mið-Fossum í Andakíl til kennslu í reiðmennsku og umhirðu hrossa. Mannvirkin eru öll í eigu Ingimundar hf., fjölskyldu Ármanns Ármannssonar heitins. „Aðstaðan á Mið-Fossum hentar Landbúnaðarháskólanum einstaklega vel og staðsetningin er ákjósanleg. Umgjörðin er góð og býður upp á einstaka möguleika til útrásar og tekjuöflunar á þessu sviði meðal annars í tengslum við mikinn áhuga á íslenska hestinum erlendis,“ segir Ragnheiður I Þórarinsdóttir rektor LbhÍ.

Nýr leigusamningur var endurnýjaður í gær og samhliða ákveðið að unnið verði að leiðum til þess að skólinn geti eignast Mið-Fossa til framtíðar. „Kaup á Mið-Fossum eru skynsamleg bæði út frá nýtingar- og fjárhagssjónarmiðum. Með aðstöðunni þar yrði til grundvöllur fyrir samþættri landbúnaðarmiðstöð sem eflir starfsemi skólans auk þess sem miklir möguleikar skapast til samnýtingar sem bæði eflir starfsemi skólans og skapar aukna möguleika til tekjusköpunar. Hér er bæði horft til útrásar með námskeið sem skapar skólanum sterkan sess og aukinn sýnileika og bættrar nýtingar á húsnæði skólans að Hvanneyri, bæði skólahúsnæðis og gistirýmis,“ segir í tilkynningu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir