Töluverð vinna var að ná upp áburðinum sem hafði lekið úr pokunum. Ljósm. abh.

Skorið á áburðapokarpoka í Dölum

Það var ekki skemmtileg aðkoma bændanna Önnu og Lolla í Magnússkógum í Dölum þegar þau komu að áburðarpokunum sínum fyrir fáeinum dögum. Pokana geymdu þau á afgirtu plani við leigutún sem þau hafa verið með í fjölmörg ár á Leysingjastöðum og hafa þau alltaf geymt pokana þarna á vorin áður en borið er á túnin. Þegar þau komu að pokunum var þeim ljóst að búið var að skera á næstum alla pokana þeirra og lak áburðurinn því úr þeim. „Við vorum þarna með 15 sekki og það var búið að skera á tíu þeirra. Nágranni okkar kom auga á þetta og lét okkur vita en þetta var ekki mjög áberandi frá veginum. Gerandinn hafði passað sig vel að láta þetta ekki sjást og allir skurðirnir snúa inn í röðina svo þeir sjáist ekki frá veginum,“ segir Anna í samtali við Skessuhorn. Hún segist nokkuð örugg um að þetta hafi verið gert af ásettu ráði en hefur þó ekki hugmynd um hver var að verki. „Miðað við hvernig þetta var gert held ég að ekki sé um einhvern á fylleríi að ræða eða neitt slíkt. Þá hefðu skurðirnir örugglega verið í allar áttir og hér og þar en þarna var alltaf skorið niður á við og gætt þess vel að láta ekki sjást frá veginum að það væri að flæða úr pokunum,“ segir Anna.

Sem betur fer voru veðurguðirnir þeim Önnu og Lolla hliðhollir í þetta skipti því ekki hafði rignt neitt í áburðinn og gátu þau því náð meirihluta af honum aftur upp og borið á túnin. „Þar sem það hafði ekkert rignt í áburðinn var hann óskemmdur og því ekki mikið eiginlegt fjárhagstjón fyrir okkur. Það voru í mesta lagi 200 kíló eftir sem liggja enn þarna og kominn sandur í og við getum ekki notað, annað fór á túnin,“ segir hún og bætir við að þó hafi þetta kostað mikla vinnu fyrir þau. „Þessu fylgdi mikið vinnuálag, kostaði rúman sólarhring í vöku fyrir okkur að ná þessu upp samhliða sauðburðartörn. En fyrst og fremst er bara ömurlegt að lenda í svona, að fólki skuli láta sér detta í hug að gera svona. Við höfum geymt áburðinn okkar þarna í fjölmörg ár og aldrei lent í neinu svona áður,“ segir hún.

Líkar þetta

Fleiri fréttir