Bátar Sæfrosts eru nú bundnir við bryggju verkefnalausir. Tjaldur BA-68 og Stormur BA-500. Búið er að róa á Tjaldi BA á yfir 50 grásleppuvertíðar, en báturinn var smíðaður í Bátasmiðju Breiðafjarðar 1955. Þeir verða að óbreyttu áfram bundnir við bryggju ef ráðherra kemur ekki til móts við grásleppusjómenn við Breiðafjörð.

Atvinnuveganefnd vill endurmat Hafró á grásleppuráðgjöf

Með bréfi til sjávarútvegsráðherra í dag, 11. maí, beinir atvinnuveganefnd Alþingis, með Lilju Rafney Magnúsdóttur í forsvari, þeim tilmælum til ráðherra að hann beini tilmælum til Hafrannsóknastofnunar um hvort ástæða sé til endurmats á úthlutun hrognkelsaveiða vegna vertíðarinnar 2020 í ljósi gagna og upplýsinga sem nefndinni hafa borist. Vísað er til erinda sem atvinnuveganefnd hefur fengið m.a. frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, samantekt Halldórs G Ólafssonar hjá Biopol og Bjarna Jónssonar forstöðumanns Náttúrustofu NV, Stykkishólmsbæ, Landssambandi smábátasjómanna og fleiri aðilum. Á það er meðal annars bent í athugasemdum sem atvinnuveganefnd hefur borist að líkur séu á að veiðiráðgjöf Hafró sé ábótavant og ástæða sé til að gefin verði út ný ráðgjöf. Í erindi sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi sendu atvinnuveganefnd er tekið undir sjónarmið þriggja sveitarfélaga á Vesturlandi sem mótmælt hafa harðlega stöðvun grásleppuveiða 3. maí síðastliðinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir