Varað við neyslu á kræklingi úr Hvalfirði

Matvælastofnun varar við tínslu á kræklingi úr Hvalfirði. DSP þörungaeitur hefur nú greinst yfir viðmiðunarmörkum í honum. Fulltrúi Matvælastofnunar safnaði kræklingi 4. maí við Fossá í Hvalfirði. Tilgangurinn var að kanna hvort almenningi sé óhætt að tína krækling í Hvalfirði. Niðurstöður mælinga leiddu í ljós að DSP þörungaeitur var 260 µg/kg í kræklingum og er það yfir viðmiðunarmörkum, sem eru 160 µg/kg. „Þar sem magn DSP er svona mikið má búast við að DSP eitur í kræklingi verði viðvarandi í sumar,“ segir í tilkynningu. DSP þörungaeitur í kræklingi getur valdið kviðverkjum, niðurgangi, ógleði og uppköstum. Einkenni koma fram fljótlega eftir neyslu og líða hjá á nokkrum dögum.

Þá segir jafnframt að neytendur hafa ekki ástæðu til að varast krækling (bláskel) sem ræktaður er hérlendis og er á markaði í verslunum og veitingahúsum. „Innlend framleiðsla á kræklingi er undir eftirliti Matvælastofnunar. Reglulega eru tekin sýni af skelkjöti og sjó til að fylgjast með magni eitraðra þörunga í sjó og hvort skelkjötið innihaldi þörungaeitur.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir