Hér er m.a. horft yfir tjaldsvæðið við Kalmansvík á Akranesi. Myndin var tekin á föstudaginn, en undanfarnar helgar hefur verið slangur af fólki í húsbílum og ferðavögnum sem gist hefur þar og tekið forskot á sælu væntanlegs ferðasumars. Ljósm. mm.

Hagstæðast fyrir vísitölufjölskylduna að ferðast um Vesturland

„Það kostar íslensku vísitölufjölskylduna frá höfuðborgarsvæðinu að lágmarki ríflega 300 þúsund krónur að verja viku úti á landi þar sem ódýrast er að gista og leika sér. Þessi sama vika getur líka kostað fjölskylduna rúmlega 750 þúsund krónur, eða hátt í þrefalt meira sé dýrari gistimöguleiki valinn. Að meðaltali kostar vikan minnst á Vesturlandi og þar býðst einnig ódýrasta vikan miðað við að gist sé á tjaldsvæði. Sú vika kostar rétt rúmar 307 þúsund krónur með gistingu, afþreyingu, bensíni og fæði.“ Þetta er niðurstaða samantektar sem tímaritið Mannlíf birtir á vef sínum. Þar segir jafnframt: „Á meðan óvissa ríkir um hvenær Íslendingum gefst aftur kostur á ferðalögum til útlanda hafa Ferðamálastofa og yfirvöld hvatt til ferðalaga innanlands í sumar. Allir Íslendingar, 18 ára og eldri, fá stafrænt gjafabréf að upphæð 5 þúsund krónur úr ríkissjóði og er litið á bréfið sem beinan stuðning við fyrirtækin í ferðaþjónustu vegna efnahagslegrar óvissu á COVID-tímum.“

Mannlíf fór á stúfana og skipulagði vikuferðalag fjögurra manna fjölskyldu, foreldra með börn á aldrinum 7 og 14 ára, í öllum landsfjórðungum Íslands. Eins og fyrr segir kemur Vesturland hagkvæmt út í þeim samanburði.

Sjá umfjöllun Mannlífs hér.

Líkar þetta

Fleiri fréttir